Stekkjastaur í Strætó

Þrátt fyrir að vera ævaforn nýtir jólasveinninn Stekkjastaur sér nútíma ferðamáta þegar hann kemur til byggða en það gerði hann einmitt með strætisvagni í morgun.

Stekkjastaur nýtti tækifærið og heimsótti krakkana á leikskólanum Kvistaborg. Jólasveinninn skemmti krökkunum á meðan þau fóru stutta ferð um hverfið, sungu jólalög og skreyttu strætisvagninn að innan með jólaskrauti sem þau gerðu sjálf. Mikil ánægja var með þessa heimsókn og gleði skein úr hverju andliti.

Heimsókn Stekkjastaurs er liður í árlegu jólaverkefni þar sem Strætó fær leikskólabörn til að senda inn jólamyndir sem prýða vagnana í desember. Alls bárust 2.122 myndir frá 69 leikskólum. Dreginn var út einn leikskóli í hverju sveitafélagi á höfuðborgarsvæðinu sem fær heimsókn frá Strætó í desember og verður jólasveinn með í för.

„Strætó þakkar leikskólabörnunum og starfsmönnum leikskólanna kærlega fyrir allar fallegu myndirnar og vonast til þess að þetta skemmtilega verkefni gleðji farþega Strætó og aðra í umferðinni í jólamánuðinum,“ segir í yfirlýsingu Strætó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert