Eitthvað undarlegt er á seyði meðal sýrlensks flóttafólks í Líbanon. Eitthvað sem hingað til hefur verið fátítt í menningu Sýrlendinga. En nú eru milljónir þeirra á flótta undan stríði sem staðið hefur í fimm ár. Fólkið býr við örbirgð, á hvergi heima og örvæntingin stigmagnast.
Í þessum aðstæðum hefur þetta nýja og ógnvekjandi vandamál fæðst: Barnahjónabönd.
„Þetta er ákveðið form af sjálfsbjargarviðleitni, auðvitað vilja þau helst ekki gera þetta,“ segir Violet Warnery, aðgerðastjóri UNICEF á vettvangi í Líbanon. Hún þekkir dæmi um að stúlkur allt niður í 10 ára séu giftar. Foreldrarnir vonist til að tryggja þannig framtíð þeirra og reyni að gifta þær mönnum sem þeir treysta. Þessi ráðstöfun færir fjölskyldunum sem eru upp fyrir haus í skuldum fjárhagslega sárabót um hríð. En til lengri tíma litið stofnar þetta heilsu stúlknanna og allri framtíð þeirra í hættu.
Í Líbanon eru rúmlega 6% sýrlenskra stúlkna undir átján ára aldri giftar og 18% þeirra sem eru milli 15 og 18 ára. Sumar hafa gifst mun eldri mönnum. Aðrar eru giftar Líbönum og foreldrarnir fá greiðslu – eða mat – að launum. Þetta er mun hærra hlutfall en t.d. meðal líbanskra stúlkna og hærra en þekktist meðal Sýrlendinga fyrir stríð.
Þessar stúlkur eru dregnar inn í heim fullorðinna. Þær eignast börn meðan þær eru sjálfar börn, hljóta því fæstar viðunandi menntun og eru fjárhagslega háðar eiginmönnum sínum. Þær eru líklegri til deyja af barnsförum og að verða fyrir kynferðis- og heimilisofbeldi en konur sem giftast og eignast börn síðar á lífsleiðinni.
„Ef það væri ekki þetta stríð hefðum við aldrei leyft dóttur okkar að giftast svona ungri,“ sagði móðir 13 ára stúlku nýverið við starfsmann UNICEF. Stúlkan, Nour, býr í tjaldi í Bekaa-dalnum í Líbanon ásamt 27 ára eiginmanni og nýfæddu barni þeirra.
Sambærileg dæmi má finna víða í flóttamannabyggðum landsins.
„Já, þær eru líka allt niður í þrettán ára gamlar, mæðurnar sem koma hingað til mín,“ segir ljósmóðirin Mirvat Mohammad og lítur alvarleg upp úr sjúkraskránum sínum á lítilli heilsugæslustöð í Líbanon. „Foreldrarnir gifta þær kornungar í von um að fyrir þeim verði séð.“
Mirvat hefur sinnt barnungum sýrlenskum mæðrum í auknum mæli síðustu mánuði. „Þær eru mjög hjálparþurfi og þurfa sálrænan stuðning,“ segir hún. „Þær vantar einhverja festu í líf sitt.“
Mirvat er í teymi heilbrigðisstarfsfólks sem starfar á færanlegum heilsugæslustöðvum sem íslenski og norski Rauði krossinn reka í sameiningu í Líbanon. Teymin fara á milli svæða og sinna grunnheilsugæslu meðal flóttamannanna. Í dag er Mirvat ásamt lækni, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðingi að störfum í Joun, litlu fjallaþorpi sem dreifir úr sér um sjö grösugar hæðir í suðurhluta landsins.
Í næsta herbergi situr 23 ára, þriggja barna móðir gegnt lækninum og ræðir líðan yngsta barnsins, þriggja mánaða drengs. Eldri systir hans, sem er um þriggja ára, fylgist forvitin með í fyrstu en missir fljótt áhugann og fer að skoða sig um á læknastofunni. Hún klípur í bómullarhnoðra, stígur á vigtina. Svo dæsir hún óþolinmóð. Hún vill fara út í sólina að leika sér. Móðir hennar segir henni að bíða, læknirinn eigi eftir að athuga hvort litli bróðir sé búinn að ná sér að fullu. Hann fæddist á sjúkrahúsi í nágrenni þorpsins og nokkuð erfiðlega gekk að koma honum í heiminn. Hann fór úr lið en er nú á batavegi.
Dóttur sína fæddi hún í Sýrlandi en fyrir tveimur árum ákváðu hún og eiginmaðurinn að yfirgefa landið. „Ástandið var orðið mjög slæmt, við urðum að flýja til Líbanons,“ segir hún og vill ekki hafa fleiri orð um flóttann. Nú á hún þrjú ung börn og býr í Joun ásamt 800 öðrum flóttamönnum. Flestir leigja þeir herbergi eða íbúðir. Þá eru þeir einnig margir með vinnu, m.a. á gjöfulum ólífuökrunum sem svæðið er þekkt fyrir. Við akrana búa þeir sumir hverjir í hrörlegum múrsteinskofum og þiggja mun lægri laun en líbanskir samstarfsmenn þeirra. Því vinna þeirra er ólögleg.
„Aðstæður þeirra í Joun eru viðunandi,“ segir Salim Kholat, formaður bæjarráðsins. Hann vill ekki ganga svo langt að segja að þær séu góðar, þó að flóttafólkið í þorpinu þurfi ekki að hafast við í tjöldum eins og víða annars staðar, geti aflað sér einhverra tekna, börnunum gefist kostur á að ganga í almenningsskóla og að þeim bjóðist ókeypis, lágmarks heilsugæsla sem m.a. er rekin fyrir fé frá Rauða krossinum á Íslandi.
Líkamleg heilsa mæðranna sem sækja heilsugæslustöðina í Joun er almennt góð. Það sama má segja um börnin. Það er hefð fyrir því að sýrlenskar konur hafi börn sín lengi á brjósti, jafnvel í tvö ár. Það hefur sem betur fer ekkert breyst þrátt fyrir flóttann frá heimalandinu.
En það er andlega hliðin sem veldur heilbrigðisstarfsfólkinu áhyggjum.
„Margir eiga mjög erfitt,“ segir líbanski læknirinn sem starfar á sjúkrahúsi en vinnur einn dag í viku á heilsugæslustöðvum Rauða krossins. Biðstofan er nú full af ungum mæðrum og börnum þeirra. Sum hlaupa um og leika sér, önnur kúra í hlýju hálsakoti mömmu. Læknirinn sér fram á enn einn langan dag á vaktinni. En honum dettur ekki í hug að kvarta. „Þau vilja sum spjalla, segja mér sína sögu,“ segir hann. „Þau eru þjökuð vegna þess sem þau sáu í Sýrlandi og vandamálanna sem hafa fylgt þeim.“
Rauði krossinn rekur sjö færanlegar heilsugæslustöðvar fyrir flóttafólkið í Líbanon, fimm eru reknar af þeim norska með stuðningi þess íslenska. Þar er t.d. boðið upp á mæðra- og ungbarnaeftirlit og ókeypis lyf. Vonast er til að hægt verði að fjölga þeim á næstunni og ná þá til afskekktustu svæðanna í fjöllunum.
Rauði krossinn í Líbanon hefur algjöra sérstöðu í landinu. Samtökin njóta gríðarlegs trausts og virðingar. Það auðveldar allt mannúðarstarf, líka erlendra systursamtaka sem halda úti margþættri aðstoð við sýrlenska flóttafólkið. Það þykir upphefð að starfa sem sjálfboðaliði hjá samtökunum og því vilja margir ganga til liðs við þau. Ekki veitir af, verkefnin eru ærin, ekki síst nú þegar 1,1 milljón sýrlenskra flóttamanna í neyð hefur bæst við þær 4,4 milljónir manna sem fyrir bjuggu í Líbanon.
Bræðurnir Hassan og Ali Jawhar eru í sjálfboðaliðasveit líbanska Rauða krossins. Síðustu daga hafa þeir sett upp rotþrær og vatnstanka við múrsteinskofa 18 fjölskyldna við ólífu- og appelsínuakra skammt frá Joun. Þeir hafa kynnst flóttafólkinu vel, er fagnað er þeir mæta í rauðu vestunum sínum á svæðið.
Í gær settu þeir upp kamar við múrsteinskofann hennar Safivu. Í dag er hún í öngum sínum og þeir eiga erfitt með að skilja hana. Hún grætur svo mikið. Hún brotnar niður um leið og hún sér þá og það eina sem Ali heyrir hana segja í fyrstu er: „Maðurinn minn, maðurinn minn. Ég sakna hans svo. Getið þið hjálpað mér?“ Hassan leggur hönd á öxl hennar. Hún róast lítið. Fyrir fjórum mánuðum lagði eiginmaður hennar af stað frá Líbanon. Ferðinni var heitið til Grikklands og þaðan til Þýskalands. Hún heyrði ekkert í honum lengi og hélt að hann væri dáinn. En nú telur hún sig vita að hann hafi náð á leiðarenda. „Og ég þarf að komast til hans, hvernig get ég það? Ég á ekkert,“ segir hún og þerrar tárin með slæðunni sinni.
Þetta er ekki fyrsta áfallið sem Safiva hefur orðið fyrir. Hún varð að flýja þorpið sitt, Hala í Sýrlandi, þegar húsið hennar var sprengt í loft upp. Nú er hún allslaus, alein og fjarri heimkynnum sínum. „Ég veit ekkert hvað varð um aðra í fjölskyldunni minni. Við komum hingað ein eftir sprengjuregnið, ég og maðurinn minn.“
Í Líbanon er hún laus við sprengjurnar og hinn stöðuga ótta sem reif í hverja taug. En aðstæðurnar eru langt frá því að vera góðar. Hún hefur verið á flakki á milli landshluta, milli þorpa. Nú er hún nýflutt í þennan óeinangraða múrsteinskofa og heldur ráðalaus. Hún er þó þakklát Ali og Hassan. Þeir vilja allt fyrir hana gera. Lofa henni nýrri hurð á kofann. Færa henni segldúka og ætla að hjálpa henni að koma þeim á þakið fyrir veturinn.
En hjartasárið er enn opið. Maðurinn hennar er í órafjarlægð. Á ókunnum stað. Og hún veit ekki hvort hún hittir hann aftur.
Fleiri flóttamenn hafa tekið sömu ákvörðun og Safiva og eiginmaður hennar, að senda einn fjölskyldumeðlim til Evrópu í þeirri von að hann fái hæli og aðrir ættingjar geti fylgt í kjölfarið á grundvelli fjölskyldusameiningar. Heilu fjölskyldurnar geta ekki flúið, þær hafa ekki efni á því.
„Við heyrum stöðugt af fleiri flóttamönnum sem eru búnir að gefast upp á dvölinni hér og vilja komast til Evrópu,“ segir Dana Sleiman, upplýsingafulltrúi Flóttamannastofnunar í Líbanon. „Þeir ætluðu sér það ekkert í upphafi, ætluðu heldur að bíða stríðið í Sýrlandi af sér í kunnuglegu nágrannalandi. En sumir taka áhættuna og fara með þessum bátum smyglara til Evrópu. Örvæntingin er sláandi.“
Þetta er neyðarúrræði, hættuför. Um 3.500 flóttamenn er saknað eða eru taldir hafa farist á leið sinni um hafið til Evrópu á þessu ári. Stundum eru börnin send ein af stað. Violet hjá UNICEF heyrði af fjölskyldu sem ætlaði að senda fimm ára dreng einan síns liðs á báti frá Líbanon til Tyrklands og þaðan til Evrópu. Lokaáfangastaðurinn var Belgía þangað sem einhver skyldmenni voru þegar komin. Þar sleppur hann kannski við að þurfa að vinna, eða að sjá á eftir systur sinni barnungri í hjónaband. „Ég hef ekki heyrt hvort þau létu verða af því,“ segir Violet hugsi og bætir við: „En þetta er aðeins eitt dæmi.“