Ekki svigrúm til að mæta öllum væntingum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, bendir á það að þeir sem heyra undir kjararáð hafa fengið minni hækkanir en aðrir í samfélaginu.

Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þáttastjórnandinn Sigurjón M. Egilsson var að ræða við ráðherrann um bætur til aldraðra og öryrkja er Bjarni fór að ræða um kjararáðið.

Frétt mbl.is: Bjarni Ben fékk sting í hjartað

„Kemur til greina að hluti af boðuðum hækkunum í bótakerfinu [til öryrkja og aldraðra] verði afturvirkar?“ spurði Sigurjón.

„Ég er ekki alveg tilbúinn til þess að nálgast þessa umræðu á þessum forsendum,“ svaraði Bjarni. „Ég heyri þessa kröfu ágætlega. Menn segja að það eigi að hækka eins og gert var hjá einhverjum öðrum. Hvaða aðrir eru þetta?

Læknar, hjúkrunarfræðingar, BHM, gerðardómurinn, BSRB, þeir sem falla undir kjaradóm og svo framvegis? Reyndar var það þannig, svo að ég hafi sagt það því það gerir það enginn annar, þeir sem heyra undir kjararáð hafa fengið minni hækkanir, bæði heldur en almenni launamarkaðurinn og opinberir starfsmenn. Þeir hafa líka fengi minni hækkanir en þeir sem treysta á bætur almannatrygginga. Ég er ekki að segja að þeir eigi að fá meira, ég ætla bara að fá að segja þetta.“ Hann sagðist vilja nefna þetta þar sem verið væri að nefna kjararáð í þessu sambandi, „sem við höfum ekkert með að gera.“

Bætur ársins 2015 fylgja kjaraþróun

Varðandi bæturnar sagði Bjarni að þær hefðu hækkað á undan launum á vinnumarkaði, um 3% á þessu ári. „Síðan voru gerðir ýmsir samningar og bætur eiga að hækka um áramót og þegar þær hækka núna um 9,7% þá er tekið tillit til þess hvað vanti upp á, þannig að bæturnar árið 2015 geti fylgt kjaraþróun og það er horft til þess sem er vænst að gerist miðað við kjarasamninga 2016. Þetta er sett að fullu leyti inn í hækkunina núna um áramót.“

Bjarni benti einnig á að það voru flokkarnir sem nú eru í stjórnarandstöðu sem skertu bætur á síðasta kjörtímabili. „Mér finnst þau ekki hafa neitt sérstaklega góðan málsstað að verja og koma svo núna og tala um afturvirkni þegar lögin eru alveg skýr.“

Bjarni sagði aðalatriðið það að bætur væru að fylgja launaþróun. „En ég er ekki kominn hingað til að segja að við eigum ekki að gera betur. Við erum að gera nákvæmlega það sem lögin kveða á um og það sem við sögðumst ætla að gera, sem er að styrkja stöðu þessara hópa.“

- En það er ekkert útilokað ennþá, fjárlögin hafa ekki verið samþykkt, sagði Sigurjón.

„Menn eiga ekki að hafa væntingar um að við tökum núna í þessari fjárlagaumræðu ákvörðun um fram það sem þegar hefur verið boðað, það er ekki við því að búast,“ sagði Bjarni.

Fjármálaráðherra sagðist vilja taka umræðuna um almannatryggingar lengra. „Ég heyri kröfuna um að bæturnar nái lágmarkslaunum á þessu kjarasamningstímabili. Það eru svoleiðis hlutir sem við ættum frekar að vera að ræða heldur en að það vanti eitthvað upp á núna um áramótin.“

Bjarni var einnig spurður um tryggingagjaldið og kröfu atvinnulífsins um lækkun þess. Hann benti á að gjaldið væri að lækka um áramótin, um 0,14%. Bjarni sagðist hafa talað skýrt um þetta mál, að tryggingagjaldið þurfi að lækka. Það væri einfaldlega ekki svigrúm til þess nú um áramótin. 

Bjarni segir að í samningslotum aðila vinnumarkaðarins hafi hins vegar verið ákveðið að leggja áherslu á lækkun tekjuskatts frekar en tryggingagjalds. „Það gerum við með fjárlögunum núna.“

Bjarni einn á torginu

Hann segir því að það hafi verið gert í fullu samráði við aðila vinnumarkaðarins að setja tryggingagjaldið aftar í forgangsröðunina. „En það sem er að gerast hér á árinu 2015 er að við erum að taka út meiri launahækkanir heldur en við stöndum undir. Þetta er bara svona. Það veldur því að það er ekki svigrúm í ríkisfjármálum til þess að mæta öllum væntingum.“

Sigurjón benti á að SALEK samkomulagið sé farið, að sögn þeirra sem að því komu og vitnaði hann m.a. til orða formanns Samtaka iðnaðarins. Bjarni sagði það ekki standa í SALEK-samkomulaginu að tryggingagjald eigi að lækka stórlega um áramótin. Hins vegar standi til að gera það.

„Má ég skilja þig þannig að þér finnist þeir vera að mála skrattann á veginn?“ spurði Sigurjón.

Bjarna sagðist stundum líða eins og hann væri einn út á torgi að tala um þetta. „Við viljum fyrst og fremst hækka laun. [..] Það sem hefur komið fram í þessari kjaralotu eru hækkanir sem eru umfram það sem við raunverulega stöndum undir.“

 Hann sagði ekki hægt að benda á fjármálaráðherrann og segja honum að koma og „redda þessu“. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert