Uppsöfnuð högg ógna heilaheilsu

Demian Maia lemur Gunnar Nelson í bardaganum í Las Vegas.
Demian Maia lemur Gunnar Nelson í bardaganum í Las Vegas. AFP

María Kristín Jónsdóttir, taugasálfræðingur sem starfar í Háskólanum í Reykjavík og á Landakoti, tekur undir orð Hafrúnar Kristjánsdóttur, sviðstjóra íþróttafræðisviðs HR, um þær alvarlegu afleiðingar sem geta hlotist af höfuðhöggum í blönduðum bardagaíþróttum, MMA.

Gunnar Nelson hlaut 142 höfuðhögg í bardaga sínum við Demian Maia í Las Vegas aðfaranótt sunnudags.

„Það hefur verið vaxandi umræða í þjóðfélaginu um heilahristing í íþróttum. Þá er verið að tala um fótbolta- og handboltamenn sem fá kannski bara nokkra heilahristinga og þurfa að hætta keppni. En þarna er hins vegar ásetningur á ferð og gefin ótalmörg höfuðhögg,“ segir María Kristín, sem hefur sérþekkingu á heilaáverkum. 

Uppsöfnuð áhrif verri 

„Það er vitað að þetta er ekki gott fyrir heilaheilsuna og áhrifin eru uppsöfnuð. Þegar þú færð eitt högg og svo strax annað áður en þú ert búinn að jafna þig þá eru áhrifin alltaf verri,“ greinir hún frá.

„Ef þú færð heilahristing í fótboltaleik og heldur áfram að spila áður en þú ert búinn að jafna þig, og færð þá kannski annan heilahristing, þá ertu mun verr staddur en ef þú hefðir leyft þér að jafna þig alveg.“

Stór bandarísk rannsókn að hefjast

Að sögn Maríu koma áhrifin ekkert endilega fram strax. „Þú hefur ákveðna heilaheilsu og þú vilt halda henni sem bestri. Þegar þú tekur af henni ertu kominn með áhættuþætti fyrir aðra sjúkdóma. Menn tala um síendurtekin höfuðhögg sem áhættuþátt fyrir heilabilun á efri árum,“ segir hún og nefnir að í Bandaríkjunum sé að hefjast rannsókn á núverandi og fyrrverandi  keppendum í hnefaleikum og blönduðum bardagaíþróttum sem heitir Professional Fighters Brain Health Study. Þar verður heilaheilsa 400 manns rannsökuð á nokkurra ára tímabili.  

„Þetta segir okkur að menn hafa áhyggjur af þessu. Það er verið að leggja af stað í stóra rannsókn vegna þess að menn halda að þarna sé eitthvað alvarlegt að og að það geti haft alvarlegar afleiðingar.“

María bendir á að þetta vandamál sé þekkt úr heimi ameríska fótboltans og nefnir kvikmyndina Concussion með Will Smith í aðalhlutverki sem fjallar um lækninn sem benti fyrstur á heilaskaða hjá NFL-leikmönnum.

María Kristín Jónsdóttir, taugasálfræðingur, hefur sérþekkingu á heilaáverkum.
María Kristín Jónsdóttir, taugasálfræðingur, hefur sérþekkingu á heilaáverkum. Mynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert