Gerði upptöku án hennar vitundar

Júlía sagði sögu sína í Kastljós-þætti kvöldsins.
Júlía sagði sögu sína í Kastljós-þætti kvöldsins. Skjáskot/RÚV

„Það er engin upphæð að fara að verða nógu há til þess að afleiðingarnar verði skárri fyrir mig. Það er enginn dómur sem hann er að fara fá sem breytir neinu um hvaða áhrif þetta hafði á mig.“

Þetta segir Júlía Birgisdóttir, en um síðustu áramót komst hún að því að maður sem hún hafði átt í stuttu sambandi við hafði tekið myndband af því þegar þau sváfu saman og að upptakan hefði ratað á netið.

Júlía steig fram og sagði sögu sína í Kastljósi kvöldsins. Þar sagði hún meðal annars að hana hefði aldrei grunað að hún myndi standa í þessum sporum tveimur árum eftir að hún hitti manninn, sem er ekki orðinn þrítugur.

Maðurinn var búsettur erlendis á meðan sambandinu stóð og fóru samskipti hans og Júlíu að mestu fram á Facebook og Skype. Á einum tímapunkti spurði hann Júlíu hvort hann mætti taka náin samskipti þeirra upp en hún neitaði.

Síðasta skiptið þegar þau hittust gerði hann hins vegar upptöku án vitundar Júlíu og tveimur árum síðar komst hún að því að upptakan hafði ratað á netið. Nafn hennar kemur hvergi fyrir en hún segir mynbandið á hundruðum klámsíða og að horft hafi verið á það að minnsta kosti 200.000 sinnum.

Júlía brotnaði niður, enda höfðu samskipti þeirra aldrei verið með þeim hætti að hann hefði ástæðu til þess að reyna að ná sér niður á henni persónulega. Júlía reyndi í fyrstu að fá manninn til að gangast við brotinu, sem hann gerði ekki, og segir að á sínum tíma hefði dugað henni að fá einlæga afsökunarbeiðni.

Nú hefur hún hins vegar bæði kært málið til lögreglu og höfðað einkamál á hendur manninum. „Ég bara innilega treysti ekki lögreglunni til að klára þetta í sakamáli,“ segir Júlía um ástæður þess að hún höfðaði einkamálið.

„Það er enginn hefndarþorsti sem liggur að baki heldur bara réttlætiskennd,“ segir Júlía. Hún segist mótfallin því að talað sé um hefndarklám í málum sem þessum, þar sem orðið gefið til kynna að um hefnd sé að ræða og klám, en ekki kynferðisbrot.

Júlía hefur farið fram á 14 milljónir í skaðabætur, meðal annars til að standa straum af kostnaði við að reyna að hefta útbreiðslu myndbandsins á netinu. Hún segir eitthvað mikið að í samfélagi þar sem staðan sé sú að fyrstu tilfinningarnar sem hún upplifir séu skömm og hræðsla.

„Ég ætla ekki að segja að ég sé að skila skömminni,“ segir hún um ákvörðun sína um að stíga fram, „því hún var aldrei mín.“

Hér má finna Kastljós í Sarpi RÚV, en þáttur kvöldsins dettur inn seinna í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka