Umsóknir tveggja albanskra fjölskyldna um íslenskan ríkisborgararétt bárust allsherjarnefnd Alþingis í gærkvöldi. Þetta staðfestir Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar í samtali við mbl.is.
Fjölskyldunum hafði báðum verið neitað um hæli hér á landi og var vísað úr landi í síðustu viku. Mikil umræða skapaðist í kjölfarið, sérstaklega í ljósi þess að í báðum fjölskyldum eru langveik börn. Í gær kom síðan fram að verið væri að ræða á vettvangi þingsins möguleika á að veita þeim íslenskan ríkisborgararétt. Í samtali við mbl.is í gær benti Unnur þó á að fólkið þurfi fyrst að sækja formlega um ríkisborgararétt svo að það sé skoðað af þinginu. Eins og fyrr segir sóttu fjölskyldurnar um í gærkvöldi.
Að sögn Unnar þarf nú að fara yfir umsóknirnar og kalla eftir frekari gögnum. Hún gat ekki sagt til um hvað það taki langan tíma að afgreiða umsóknirnar.