Fimm manna fjölskylda frá Úsbekistan bíður nú eftir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála en Útlendingastofnun neitaði þeim um hæli hér á landi í lok október. Fjölskyldan kom hingað til lands í ágúst og samkvæmt úrskurði Útlendingastofnunnar þurfa þau að vera farin 27. mars á næsta ári. Fjölskyldan kærði útskurðinn og var sagt að það gæti tekið þrjá til fimm mánuði að fá niðurstöðu hjá kærunefndinni.
Í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins í september lýstu hjónin Vladimir og Irina því hvernig þau hefðu þurft að yfirgefa Úsbekistan vegna trúarofsókna. Þar óttuðust þau um líf sitt og sáu engan annan kost en að flýja. Í Úsbekistan starfaði Irina í ferðamennskugeiranum en Vladimar vann á flugvellinum í innflutnings- og útflutningsdeild. Þau lifðu eðlilegu lífi, áttu íbúð og tvo bíla og börnin gengu í skóla og í leikskóla. Það breyttist allt vegna trúarskoðana þeirra. Fjölskyldan er baptistatrúar en langflestir landsmenn múslimatrúar. Þau tóku skírn í fyrra og fljótlega fór lögreglan að ofsækja þau.
„Við megum ekki vera baptistatrúar og vorum sökuð um að vera hryðjuverkamenn, ofstækismenn og jafnvel segja þau að við séum eiturlyfjaneytendur og allt af því að við erum baptistar,“ sögðu hjónin í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. „Maðurinn minn var handtekinn og sat inni í viku. Hann var barinn þar daglega,“ sagði Irina. „Við fórum og kvörtuðu til háttsettra yfirvalda en það var ekkert hlustað á okkur.“
Fjölskyldan kom hingað til lands í gegnum París og munu því þurfa að fara aftur þangað verði þeim vísað úr landi. Í samtali við mbl.is segist Irina ekki vilja fara til Frakklands þar sem þar ríkir algjört aðstæðuleysi fyrir hælisleitendur. Í ljósi nýafstaðinna hryðjuverkaárása og fjölda flóttamanna og hælisleitanda í landinu segir Irina Frakkland ekki öruggan stað fyrir fjölskylduna. „Börnin okkar hafa séð hvað er í gangi í Frakklandi í sjónvarpinu og eru hrædd við „staðinn þar sem sprengjan sprakk,“ segir Irina. „Stundum gráta þau fyrir framan sjónvarpið.“
Að sögn Irina hefur fjölskyldan aðlagast vel á Íslandi. Börnin, hin níu ára gamla Milina og tvíburarnir Samir og Kemal sem eru sex ára, eru byrjuð í skóla og farin að læra tungumálið. „Við viljum byrja að leita okkur að vinnu, við viljum ekki vera háð félagsþjónustunni. Hér göngum við frjáls úti á götu. Við viljum rólegt og öruggt líf fyrir okkur og börnin okkar.“