Mögnuð og stórmerkileg ráðstefna

Frá borgarstjórnarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Frá borgarstjórnarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sagði á borgarstjórnarfundi að það hafi verið magnað að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í loftslagsráðstefnunni í París.

Hann ræddi um skýrslur sem hafa verið lagðar fram um að draga úr mengun í Reykjavík. „Eftir alla þessa vinnu og skýrslur þá er stefnt að því að nettólosun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík verði í framtíðinni engin,“  sagði hann.

Björn Blöndal, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar, sagði að samningurinn sem var gerður á ráðstefnunni í París hafi verið ákaflega sögulegur, enda sé viðurkenningin á því sem þarf að gera í loftslagsmálum orðin mun skýrari en áður.

Reykjavík á góðum byrjunarpunkti

Hann minntist á umfjöllun í tímaritinu National Geographic  sem var kynnt í París. Þar var greint frá því að Reykjavík væri eina höfuðborgin í heiminum sem væri 100 prósent án mengunar frá jarðefnaeldsneyti við upphitun á húsum. „Við erum á ansi góðum byrjunarpunkti. Þarna hafa farið saman náttúrulegar aðstæður og heilmikið hugvit. Það gefur okkur samt ekki rétt til að vera sóðar á öðrum sviðum,“ sagði hann.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG,  steig einnig í pontu. „Ég vil þakka fyrir þau forréttindi að hafa fengið að taka þátt í þessari stórmerkilegu ráðstefnu. Hún hafði mögnuð áhrif á mig persónulega sem stjórnmálakonu," sagði hún.

Sóley bætti því við að það hafi verið yfirþyrmandi að vera „hreppsnefndarfulltrúi á norðurhjara veraldar“ innan um þekktar manneskjur á borð við Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem geta breytt miklu í heiminum. Ekki bara á afmörkuðu svæði eins og hér á landi.

Einnig ræddi hún um stöðu kvenna í þróunarlöndum í tengslum við loftslagsbreytingar. 

Sóley lagði jafnframt til að borgin ætti að fá almenning til að leggja enn meira af mörkum í baráttunni gegn hlýnun jarðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert