Hvað mun hækka í Reykjavík?

Gjaldskrártekjur á hverju sviði munu að meðaltali hækka um 3,2%. …
Gjaldskrártekjur á hverju sviði munu að meðaltali hækka um 3,2%. Stakt gjald fyrir fullorðna í sundlaugar Reykjavíkur mun hins vegar hækka um 38,5% og verður 900 kr. Stakt gjald var 650 kr. mbl.is/Ómar

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í gær gjaldskrár næsta árs. Gert er ráð fyrir að gjaldskrár sem borgin hefur ákvörðunarvald yfir hækki þannig að gjaldskrártekjur á hverju sviði hækki að meðaltali um 3,2%. mbl.is kynnti sér nokkrar breytingar.

Eins og fram hefur komið, þá munu námsgjöld á leikskóla verða óbreytt en lækka samkvæmt nánari útfærslu síðar á árinu. Hluti boðaðra lækkana frestast þó vegna fjárhagsstöðu borgarinnar. Gert er ráð fyrir að gjaldskrár umhverfis- og skipulagssviðs endurspegli raunkostnað eins og verið hefur.

Námsgjöld í leikskóla verða óbreytt.
Námsgjöld í leikskóla verða óbreytt. mbl.is/Eva Björk

Borgarbúar og aðrir gestir eru duglegir að nota sundlaugarnar í Reykjavík. Á nýju ári um stakt gjald fyrir fullorðna hækka úr 650 kr. í 900 kr., og nemur hækkunin 38,5%. Stakt gjald fyrir börn helst óbreytt í 140 kr. Verð á kortum, s.s. 10 miða, 20, miða 6 mánaða og árskort, mun haldast óbreytt.

Þeir sem vilja heimsækja ylströndina í Nauthólsvík um vetur þurfa að greiða 600 kr. í stað 500 kr. áður. Nemur hækkunin 20%. Fjögurra mánaða vetrarkort mun hækka um 300 kr. og verður 6.000 kr. Leiga á handklæði mun hins vegar haldast óbreytt og verður þar af leiðandi áfram 600 kr.

Þeir sem vilja heimsækja ylströndina í Nauthólsvík þurfa að greiða …
Þeir sem vilja heimsækja ylströndina í Nauthólsvík þurfa að greiða 100 krónum meira á næsta ári, en gjaldið hækkar úr 500 í 600 kr. mbl.is/Styrmir Kári

Verð fyrir 5-12 ára börn sem vilja heimsækja Fjölskyldu- og húsdýragarðinn mun hækka lítillega, eða úr 600 kr. í 620 kr. Verð fyrir fullorðna hækkar um 40 krónur og verður 840 kr. á næsta ári. Áfram verður ókeypis fyrir börn sem eru fjögurra ára og yngri. Einnig fyrir aldraða og öryrkja.

Þeir sem vilja næla sér í bókasafnsskírteini þurfa að greiða 1.850 kr., en verðið var 1.800. kr. Nemur hækkunin 2,8%. Börn og unglingar undir 18 ára aldri, eldri borgarar og öryrkjar greiða ekki fyrir skírteini. 

Stakt gjald, bæði fyrir börn og fullorðna, sem vilja heimsækja …
Stakt gjald, bæði fyrir börn og fullorðna, sem vilja heimsækja Fjölskyldu- og húsdýragarðinn mun hækka lítillega. mbl.is/Styrmir Kári

Dagsektir vegna bóka og annarra gagna hækka um 25%, eða úr 40 kr. í 50 kr. Hámarkssekt á gagn verður 700 kr. en var 650 kr. 

Aðgangseyrir fyrir fullorða í Listasafn Reykjavíkur hækkar um 100 krónur og verður 1.500 kr. Nemur hækkunin 7,1%. Áfram er ókeypis fyrir börn að 18 ára aldri. Einnig er ókeypis fyrir eldri borgara og öryrkja. 

Fimm daga vistun á frístundaheimili hækkar um 3,2% og verður 12.750 kr. Var 12.350 kr. Þá mun síðdegishressing í fimm daga hækka úr 3.570 kr. í 3.680 kr., eða sem nemur 3,1%.

Sumarnámskeið í fimm daga (heill dagur) fyrir börn sem eru 6-9 ára gömul mun hækka um 3,2%, eða úr 8.210 kr. í 8.470 kr.

Máltíðir í grunnskólum munu hækka um 300 kr. og verður 7.100 kr. Nemur hækkunin 4,4%.

Fæðisgjald í leikskólum mun hækka um 3,2%. 

Framlag vegna barna hjá dagforeldrum helst óbreytt.

Mengunar- og heilbrigðiseftirlit mun hækka um 13,5% í öllum flokkum.

Kostnaður vegna hundahalds í borginni mun hækka um 4,8%.
Kostnaður vegna hundahalds í borginni mun hækka um 4,8%. mbl.is/Eggert

Hvað varðar hundahald í borginni, þá mun skráning í 1. flokki hækka um 4,8% og verður 19.800 kr. Var 18.900 kr. Skráning í 2. flokki hækkar um 4,7% og verður 30.200 kr. Var 28.850 kr.

Hvað varðar sorphirðu, þá verður tunna með blönduðu sorpi (svarta tunnan) sótt á 14 daga fresti í stað 10 daga eins og hefur verið. Kostnaðurinn við að sækja tunnuna á 10 daga fresti nam 21.600 kr. En gjald fyrir að sækja tunnuna á 14 daga fresti nemur nú 21.300 kr.

Byggingaleyfisgjöld hækka um 2,8% í öllum flokkum. Úttektir og vottorð munu hækka um 3,2%. 

Skipulagsvinna og útgáfa framkvæmdaleyfa helst óbreytt.

Götu- og torgsöluleyfi munu hækka. T.d. mun nætursölusvæði fyrir vagna á Lækjartorgi (ársleyfi) hækka um 3,2%. Verðið var 250.000 kr. en það mun verða 258.000 kr. Verð á nætursölusvæði fyrir vagna á Geirsgötuplani hækka úr 200.000 kr. í 206.400 kr.

Akstursþjónusta eldri borgara mun hækka um 3,2%.
Akstursþjónusta eldri borgara mun hækka um 3,2%. mbl.is/Styrmir Kári

Verð á dagsölusvæði (ársleyfi) fyrir færanlega söluvagna sem dregnir eru af annarri bifreið mun hækka um 3,2%. Verður í flestum tilvikum 103.500 kr., nema á bílastæði efst á Frakkastíg/Skólavörðuholti. Þar kostar leyfið á nýju ári 154.800 kr.

Dagsleyfi vegna borgarhátíða, s.s. 17. júní. Hinsegin daga og Menningarnótt, munu hækka um 3,2%

Akstursþjónusta eldri borgara mun hækka úr 1.095 kr. í 1.130 kr. hver ferð. Nemur hækkunin 3,2%. 

Kostnaður vegna borgarhátíða mun hækka um 3,2%
Kostnaður vegna borgarhátíða mun hækka um 3,2% mbl.is/Eva Björk

Gjaldskrár 2016

Fundargerð borgarstjórnar (15. desember 2015)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert