Umferðaróhapp varð við mislægu gatnamótin við Höfðabakka fyrir skömmu. Samkvæmt heimildum mbl.is eru nokkrar umferðartafir í vesturátt af þessum sökum en lögregla er á staðnum.
Ekki hefur náðst í varðstjóra vegna málsins.
Uppfært kl. 18.56:
Samkvæmt starfsmanni Morgunblaðsins sem átti leið hjá er öll umferð undir Höfðabakkabrúna í átt að Mosfellsbæ svo gott sem stopp. Þeir ökumenn sem eru á leið í austurátt geta hins vegar beygt til hægri upp á Höfðabakkabrúna og farið yfir hana til að komast framhjá.
Uppfært kl. 19:06:
Búið er að loka veginum undir Höfðabakkabrúna í átt að Mosfellsbæ þar sem að flutningabíll með gám af gleri rakst undir brúna. Að sögn varðstjóra brotnuðu nokkur tonn af gleri og unnið er við að hreinsa veginn. Hann gerir ráð fyrir að lokunin standi í 10-15 mínútur í viðbót.
Uppfært kl. 19:37:
Fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að búið er að opna Vesturlandsveg aftur undir Höfðabakkabrú.