Kári beið lægri hlut í Hæstarétti

Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og  sýknað Karl Axelsson af kröfu Kára Stefánssonar sem fór fram á ógildingu á úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna um þóknun Karls og lögmannsstofu hans vegna vinnu sem unnin var af þeirra hálfu í þágu Kára. Hún nam 2,8 milljónum króna.

Kári leitaði til Karls um lögmannsþjónustu í ágúst 2011 vegna ágreinings er upp var kominn milli Kára og byggingarverktakans Fonsa ehf., sem tekið hafði að sér að ljúka uppsteypu á einbýlishúsi hans í Kópavogi samkvæmt verksamningi 18. júní 2010. Karl var á þeim tíma starfandi hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum lögmannsstofunnar LEX.

Allir dómarar í Hæstarétti voru vanhæfir til að dæma í málinu, en Karl starfar nú sem dómari við Hæstarétt. Þess í stað dæmdu í málinu þau Eggert Óskarsson, fyrrverandi héraðsdómari, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari. 

Kári byggði meðal annars á því að úrskurðarnefndin hefði farið út fyrir valdssvið sitt samkvæmt lögum um lögmenn er hún kvað upp úrskurð um þóknun lögmannsins og lögmannsstofunnar og að Karl hefði framselt málflutningsumboð sitt án samþykkis Kára til annarra lögmanna á stofunni.

Talið var að heimild samkvæmt 26. gr. laga um lögmenn, til að bera ágreining um endurgjald undir úrskurðarnefnd lögmanna, tæki bæði til vinnu lögmannsins sjálfs og annarra sem ynnu á hans ábyrgð og gæti það ekki haft áhrif á málskotsréttinn samkvæmt áðurnefndu ákvæði hvort reikningar hefðu verið gefnir út í nafni félags eða lögmannsins persónulega.

Hefði úrskurðarnefndin því ekki farið út fyrir valdsvið sitt er hún kvað á um hæfilegt endurgjald fyrir vinnu Karls og annarra á lögmannsstofunni. Þá hefði Kára verið ljóst að annar lögmaður á stofu Karls myndi vinna að málinu og ósannað var að það hefði sætt sérstökum andmælum af hálfu Kára.

Karl hefði haft yfirumsjón með vinnunni, borið á henni ábyrgð gagnvart Kára og farið með fyrirsvar málsins, enda yrði ekki annað ráðið af málsgögnum en að Karl hefði ætlað að flytja málið sjálfur fyrir dómi sblr. lög um lögmenn.

Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu KA því staðfest. Er Kára jafnframt gert að greiða 400.000 kr. í málskostnað.

Allir hæstaréttardómararnir vanhæfir

Karl Axelsson er í dag dómari við Hæstarétt.
Karl Axelsson er í dag dómari við Hæstarétt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert