Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja ekki til Hæstaréttar sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli gegn Ástu Kristínu Andrésdóttur, sem var ákærð fyrir manndráp af gáleysi eftir að sjúklingur í hennar umsjón lést á gjörgæsludeild Landspítala síðla árs 2012.
Þetta kemur fram á vef Ríkissaksóknara.
„Það hvarflaði aldrei að mér að það yrði áfrýjað, ég leit á þetta bara sem pro forma,“ segir Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður Ástu, um niðurstöðuna. Honum hefur ekki borist formlegt erindi um ákvörðun ríkissaksóknara en sá tilkynninguna á vefnum rétt í þessu.
„Réttarhöldin leiddu í ljós að ákæran gat ekki staðist,“ segir hann, „því hún er ákærð fyrir að hafa ekki opnað öndunarveginn þegar hún slökkti á öndunarvélinni en maðurinn andaði í 25 mínútur eftir það.“
Þrátt fyrir að hann efaðist ekki um að málinu væri lokið þegar dómur féll í héraðsdómi segir Einar ánægjulegt að fá það formlega staðfest.
„Jú, það er þá endanlega orðið ljóst og það er mikið gleðiefni og gott að hún fái þetta fyrir jól,“ segir hann. „En það hvarflaði ekki að mér eitt andartak að málinu yrði áfrýjað; réttarhöldin sýndu bara að þetta fékkst ekki staðist.“