Norðaustan og ófærð í kortunum

Það mun blása hressilega víða á landinu síðar í dag.
Það mun blása hressilega víða á landinu síðar í dag. mbl.is/Rax

Búast má við mjög versnandi akstursskilyrðum á norðanverðu landinu með deginum og einnig á fjallvegum austanlands. Spáin gerir ráð fyrir yfir norðaustan og austan stormi á norðvesturlandi.

Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að búist er við stormi (meðalvindi meira en 20 m/s) í dag á Snæfellsnesi, við Breiðafjörð, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra. Einnig er búist við stormi syðst á landinu fram undir hádegi. Dregur úr vindi á landinu í nótt.

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring:

Norðaustan- og austan 18-23 m/s á norðvestanverðu landinu í dag og einnig syðst fram undir hádegi. Yfireitt 13-18 í öðrum landshlutum. Úrkoma víða um land, snjókoma norðan til og vægt frost, en rigning eða slydda S- og A-lands og hiti 1 til 6 stig. Dregur úr vindi í nótt og kólnar, víða norðaustan 8-13 þegar kemur fram á morgundaginn og dálítil él.

Á föstudag:

Norðaustan 8-15 m/s og él N- og A-lands, annars þurrt að kalla. Austlægari seinnipartinn og dregur úr úrkomu fyrir norðan, en þá líkur á éljum eða skúrum S-lands. Frost 0 til 7 stig, en frostlaust syðst.

Á laugardag:
Norðaustan 10-18 m/s, hvassast austast á landinu. Úrkomulítið á S- og V-landi, annars snjókoma, einkum á A-landi. Frost 0 til 5 stig.

Á sunnudag:
Norðan 8-13 m/s og él, en bjartviðri sunnan heiða. Kólnandi veður.

Á mánudag:
Stíf austanátt með snjókomu eða slyddu um landið S-vert og hita um og undir frostmarki. Hægari vindur á N- og A-landi, þurrt og frost að 12 stigum.

Á þriðjudag og miðvikudag (Þorláksmessa):
Útlit fyrir austan- og norðaustanátt með líkum á snjókomu eða slyddu í flestum landshlutum, síst þó SV-lands. Hiti um og undir frostmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert