Það er til skoðunar að hjúkrunarfræðingurinn Ásta Kristín Andrésdóttir, sem ákærð var fyrir manndráp af gáleysi eftir að sjúklingur í hennar umsjón lést á Landspítala síðla árs 2012, leiti réttar síns og krefjist skaðabóta frá ríkinu. Þetta segir Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður Ástu í samtali við mbl.is. „Það er til skoðunar, enda stendur í lögum að ef saklaust fólk er ákært á að borga því bætur,“ segir Einar.
Ásta og Landspítalinn voru sýknuð af öllum ákærum í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. september sl. og í gær var tekin ákvörðun um að dómnum yrði ekki áfrýjað.
Við aðalmeðferð í málinu lýsti Ásta því hvernig síðustu þrjú ár, síðan að sjúklingurinn lést, hefðu verið helvíti fyrir hana. Hjónaband hennar væri búið og barnið hennar ætti mjög erfitt, eins og segir í lýsingu blaðamanns mbl.is úr dómssal. Ásta hafði íhugað að flytja til Noregs og starfa þar sem hjúkrunarfræðingur en gæti það ekki vegna þess að hún gæti ekki útskýrt málið fyrir mögulegum nýjum vinnuveitendum. Hún fengi ekki að taka aðrar vaktir en dagvaktir á Landspítalanum þar sem hún starfaði á svæfingardeildinni. „Hana hefði oft langað að deyja vegna málsins,“ segir í fyrri frétt mbl.is.