Fleiri vilja afnema snakktoll

Sigríður Á. Andersen á Alþingi.
Sigríður Á. Andersen á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Á. Andersen, alþingismaður, hefur lagt fram nýja tillögu um afnám  tolls á innflutt kartöflusnakk. Sex flutningsmenn úr öðrum flokkum hafa bæst við og virðist stuðningurinn í málinu víðtækur.

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði í upphafi til að 59 prósenta tollur á kartöflusnakk yrði afnuminn en dró tillöguna svo til baka.

Sigríður, sem situr í nefndinni, ákvað þá að flytja tillöguna í eigin nafni. Hún breytti tillögunni á þann veg að hún myndi taka gildi á miðju næsta ári en ekki núna um áramótin.

Í annarri umræðu á Alþingi um hinn svokallaða bandorm breytti hún tillögunni aftur og frestaði gildistökunni þangað til í ársbyrjun 2017.

Kom til móts við annað sjónarmið

„Meirihluti nefndarinnar taldi ekki tímabært að leggja þessa breytingartillögu til en féllst á að gera það þegar gildistímanum var aðeins breytt. Ég taldi sjálfsagt að koma til móts við þetta sjónarmið til að mögulegt væri að fjölga stuðningsmönnunum,“ segir Sigríður.

Nýir flutningsmenn með tillögunni eru Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Vilhjálmur Bjarnason og Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki. Allur meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar, fyrir utan Frosta Sigurjónsson, stendur því að tillögunni.

Sigríður segist bjartsýn á að málið komist í gegnum þingið. „Miðað við hversu margir flutningsmenn eru að þessari tillögu á ég von á því.“

Verndar mjög þrönga hagsmuni

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, er einnig bjartsýnn á að tillagan nái í gegn. Hann telur umræðuna í kringum málið hafa varpað skýru ljósi á það að tollurinn sé bæði ósanngjarn og ómálefnalegur.

„Hann er fyrst og fremst fallinn til þess að skaða neytendur og hann verndar mjög þrönga hagsmuni sem hafa látið í sér heyra. En ég held að þingheimur og fólk átti sig á að það er engin ástæða til að leggja 160 milljóna króna tolla á neytendur til að vernda tuttugu störf í einhverjum iðnfyrirtækjum,“ segir Ólafur.

Tollar á ís úr jurtamjólk felldir niður?

Hann vonast til að snakkmálið verði til þess að fleiri tollar verði afnumdir og segir göt vera þegar byrjuð að myndast í „matartollmúrunum“.  Þannig nefnir hann að í bandorminum sé lagt til að felldir verði niður tollar á ís sem er búinn til úr jurtamjólk og er ekki í samkeppni við innlenda framleiðslu, rétt eins og kartöflusnakkið.  „Ég held að það sé ástæða til að ganga á röðina með alls konar landbúnaðarvörur sem er ennþá verið að tollleggja upp í botn en eru ekki framleiddar á Íslandi eða ekki í þeim mæli að það anni eftirspurn,“ segir Ólafur.

Umræðan um afnám tolla á snakk heldur áfram á Alþingi.
Umræðan um afnám tolla á snakk heldur áfram á Alþingi. mbl.is/Jim Smart
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka