Snakkmálið í Hæstarétti í febrúar

Áfrýjun í snakkmálinu verður tekin fyrir í Hæstarétti í febrúar.
Áfrýjun í snakkmálinu verður tekin fyrir í Hæstarétti í febrúar. mbl.is/Jim Smart

Hinn 15. febrúar næstkomandi  verður tekin fyrir í Hæstarétti Íslands áfrýjun Haga, Ölgerðarinnar og Innness í snakkmálinu svokallaða. Ríkið var fyrr á árinu sýknað af kröfum fyrirtækjanna í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Fyrirtækin kröfðust endurgreiðslu frá ríkinu vegna 59 prósenta tolls á innfluttar kartöfluflögur sem þau töldu ólögmætan.

Tollurinn var afnuminn í gær en þrátt fyrir það er málið enn í gangi af  hálfu fyrirtækjanna.

Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur, flytur málin þrjú í Hæstarétti fyrir hönd fyrirtækjanna. Hann telur að ákvörðun Alþingis um að fella niður tollinn hafi engin áhrif á áfrýjunina.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, er að vonum ánægður með að Alþingi ákvað að fella snakktollinn niður. Lögin þar að lútandi taka gildi í byrjun árs 2017. „Ég er mjög ánægður. Það er gott að losna við þennan toll. Það er ljóst að þessi vara sem ber þessa tolla mun lækka í verði sem þessu nemur,“ segir Finnur.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, tekur í sama streng. „Ég fagna þessu. Þetta er gott fyrsta skref í áttina að því að afnema tolla á matvæli,“ segir hann en fyrirtækið flytur inn Lay's-  og Doritos.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, er ánægður með afnám snakktollsins.
Finnur Árnason, forstjóri Haga, er ánægður með afnám snakktollsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert