Skaðabótarmál slitastjórnar Glitnis gegn Lárusi Welding og átta öðrum stjórnarmönnum Glitnis hefur verið fellt niður, en slitastjórnin taldi að ákvörðun stjórnarinnar að veita Baugi 15 milljarða lán hafi verið ábótavant og valdið 6,5 milljarða tjóni. Baugur nýtti lánið til að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group, en Baugur var þá stærsti eigandi félagsins.
Samkvæmt upplýsingum frá lögmönnum bæði stefnanda og stefnda var gerð sátt sem felur í sér að allir málsaðilar muni greiða sinn málskostnað en að málið verði að öðru leyti fellt niður. Einn hinna stefndu sætti sig þó ekki við þá niðurstöðu og mun samkvæmt heimildum mbl.is láta á það reyna hver greiði málskostnaðinn.
Samkvæmt upplýsingum lögmanna Glitnis var ákveðið að láta málið falla niður eftir ákvörðun embættis sérstaks saksóknara um að falla frá ákæru í sama máli. Hafði slitastjórnin sent málið áfram til embættisins. Lánið sem um ræðir var veitt um áramótin 2007-2008 og var 15 milljarða víkjandi lán
Slitastjórn Glitnir höfðaði málið gegn Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi forstjóra Baugs og fyrrverandi stjórn Glitnis, en í henni sátu Þorsteinn M. Jónsson, þáverandi eigandi Vífilfells, Jón Sigurðsson, sem var forstjóri FL Group, Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrverandi stjórnarformaður FL Group, Pétur Guðmundarson, lögmaður hjá Logos, Björn Ingi Sveinsson, sem var forstjóri Saxbygg, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis.