Íslenskar konur unnu ýmis afrek á árinu sem einstaklingar en stærstu afrek þessa hluta þjóðarinnar árið 2015 hafa hinsvegar með glerþakið svokallaða að gera.
Glerþakið, sem heldur konum niðri jafnt í einkalífi þeirra sem og á almennum vettvangi, er alsett sprungum eftir eitt viðburðarríkasta ár íslenskrar kvenréttindabaráttu frá upphafi. Íslenskar konur og stuðningsmenn kynjajafnréttis gáfu feðraveldinu ítrekað fingurinn í gegnum samfélagsmiðla og vöktu athygli á málaflokknum langt út fyrir landsteinana. Tímasetningin er viðeigandi, enda var í ár liðin ein öld frá því að konur öðluðust kosningarétt hér á landi.
Árið leið þó ekki í femínískri sæluvímu. Glerþakið er eftir allt saman ekki mölvað, aðeins laskað. Þrátt fyrir mikinn hugmyndafræðilegan sigur fyrir femínisma á samfélagsmiðlum undir ýmsum myllumerkjum hafa síðustu mánuðir ársins einkennst af mikilli reiði í garð réttarkerfisins vegna meðferðar kynferðisbrotamála.
mbl.is tók saman helstu viðburði ársins í baráttu Íslendinga fyrir jafnrétti kynjanna.
Hinn 26. mars 2015 var dagur geirvörtunnar og mun eflaust seint líða mönnum úr minni. Átakið má rekja til Öddu Þóreyjardóttur Smáradóttur, en fjöldi fólks kom henni til varnar eftir að hún varð fyrir aðkasti fyrir að frelsa geirvörtuna. Efnt var til #freethenipple-dags í fjölmörgum menntastofnunum, á Twitter og í Laugardalslaug og tóku bæði konur og karlar og þátt í því að styðja við málefnið sem snýst bæði um baráttuna gegn hrelliklámi og gegn klámvæðingu þessa líkamshluta kvenna.
Ýmsar tilraunir voru gerðar til að draga úr gildi baráttunnar en þær snerust yfirleitt um vanskilning á efni hennar og eðli. Baráttan var m.a. gagnrýnd af Kvennablaðinu fyrir að þrýsta á ungar konur til að bera sig en ritstjóra blaðsins var svarað fullum hálsi og pistill hans sagður birtingarmynd feðraveldisins. Seinna kom fram í rannsókn Baldvins Þórs Bergssonar á átakinu að þátttakendur höfðu skýra sýn á tilgang þess og fáir töldu sig verða fyrir þrýstingi.
Séð og heyrt var einnig gagnrýnt fyrir sína túlkun á baráttunni en miðillinn birti greinina „Flottustu femínistabrjóstin“ sem viðkomandi konur svöruðu með háðskri yfirlýsingu.
Þá var myndum af frjálsum geirvörtum safnað í skrá á deildu.net þar sem fjölmargir sóttu skrána. Ólíkt hrelliklámmyndum, sem er deilt án leyfis þolenda, voru myndirnar hinsvegar eðli málsins samkvæmt komnar frá konunum sjálfum og kipptu skipuleggjendur átaksins sér lítið upp við uppátækið.
Baráttan var svo vel heppnuð að þremur mánuðum seinna, þann 13. júní, var aftur haldinn geirvörtugleði og í þetta skipti í sólinni á Austurvelli. Síðan hafa fjölmargar ungar konur greint frá jákvæðum persónulegum áhrifum átaksins.
Knippi mbl.is: Geirvartan frelsuð
Tæpri viku eftir seinni geirvörtudag ársins komu Íslendingar aftur saman á Austurvelli. Í þetta skipti voru þó flestir fullklæddir enda tilefnið sérlega hátíðlegt: Aldarafmæli kosningaréttar kvenna.
Tímamótunum var fagnað með ýmsum hætti bæði mánuðina fyrir og eftir sjálfan afmælisdaginn. Mbl.is lét ekki sitt eftir liggja og birti m.a.100 tilvitnanir í konur um vald og kvenréttindi og 100 pistla eftir 100 konur um kosningaréttinn.
Vigdís Finnbogadóttir var á meðal þeirra sem ávarpaði mannfjöldann þann 19. júní og sagði hún að dagurinn myndi standa sem fyrirmynd í hugum ótal margra þjóða víða um heim. „Fyrirmynd um jafnrétti karla og kvenna til að kjósa sér þjóðfélagsskipan og landstjórn. Hann mun vissulega fréttast víða í opnum heimi samtíðarinnar,“ sagði Vigdís.
Undir lok athafnarinnar var afhjúpuð stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason, fyrstu konunni til þess að taka sæti á þingi á Íslandi, utan við Alþingishúsið.
Knippi mbl.is : 100ára kosningaafmæli kvenna
Og talandi um þingkonur, þær létu svo sannarlega í sér heyra á árinu í ýmsum málefnum kvenna. Í upphafi árs mælti Björt Ólafsdóttir hjá Bjartri framtíð t.a.m. fyrir frumvarpi um bann við hrelliklámi. Málið var ekki afgreitt en var lagt aftur fram í haust og bíður nú afgreiðslu. Í millitíðinni hefur fjöldi þolenda hefndarkláms stigið fram og rætt reynslu sína, m.a. kona sem var blekkt af kynlífstúrista og kona sem hyggst höfða einkamál gegn gerandanum vegna vantrúar á dómskerfinu. Þolendur hefndarkláms komu einnig fram í tengslum við #freethenipple en Björt frelsaði einmitt geirvörtuna og sagði gagnrýnisröddum að troða því upp í feðraveldið á sér.
Annar þingmaður Bjartrar framtíðar, Heiða Kristín Helgadóttir vakti athygli á kvennaskattinum svokallaða í nóvember. Spurði hún á þingi af hverju væri verið að skattleggja í henni legið og uppskar mikinn fögnuð fyrir #túrvæðinguna sem sumum þótti þó nóg um.
Þá steig Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar fram og sagði frá reynslu sinni af heimilisofbeldi í æsku. Frásögn Guðrúnar smellpassaði inn í næstu myllumerkjabyltingu samfélagsmiðlanna #þöggun sem hófst á Beauty Tips tæpum tveimur vikum eftir að Guðrún „tók upp úr bakpokanum“ á málþingi um heimilisofbeldi í HR.
Knippi mbl.is: Heimilisofbeldi
Notkun myllumerkjanna #þöggun og #konur tala hófst innan Beauty Tips hópsins þar sem meðlimir hans mótmæltu meintri þöggun umsjónarmanns hópsins á umræðu um lögmanninn Svein Andra Sveinsson með því að deila reynslusögum sínum af kynferðisofbeldi.
Mótmælin undu upp á sig og fór svo að hundruð, ef ekki þúsundir kvenna á öllum aldri deildu upplifunum sínum og hlutu stuðning kynsystra sinna á móti. Margar höfðu aldrei rætt um brotin áður og var óvenjumikill fjöldi brota tilkynntur til lögreglu í maí mánuði, þó ekki þyki ljóst að tölurnar tengist átakinu. Átakið hafði þó áþreifanleg áhrif og skilaði m.a. fjórum kærum í gegnum ókeypis þjónustu sem Sigrún Jóhannsdóttir héraðsdómslögmaður setti á laggirnar en einnig samþykkti borgarstjórn einróma að flýta stofnun ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur vegna átaksins.
Þá náði átakið út fyrir vefveggi Beauty Tips og inn á veggi einstaklinga á Facebook þar sem notendur notuðu gular og appelsínugular myndir til að gefa til kynna að þeir þekktu þolanda kynferðisofbeldis eða væru þolendur kynferðisofbeldis. Aftur vakti íslensk kvenréttindabarátta athygli út fyrir landsteinanna en barátta gegn kynferðisofbeldi hefur verið skilgreind sem slík, þrátt fyrir að vera ekki einkamál kvenna, vegna þess hve mikill meirihluti þolenda eru konur.
Í því samhengi má rifja upp að í ár lærðum við að samþykki er eins og tebolli.
Hér á undan hefur mestmegnis verið fjallað um jákvæða atburði en allir eiga þeir rót sína í því misrétti sem konur verða fyrir í samfélaginu. Eins og áður segir er kynferðisofbeldi innan þess mengis og því er ekki hægt að tala um baráttu ársins fyrir jafnrétti án þess að segja frá viðburðum nóvember mánaðar.
Ákvörðun um að fara ekki fram á gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem sakaðir eru um kynferðisbrot gegn tveimur konum í íbúð Hlíðunum leiddi til mótmæla utan við lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem almenningur krafðist breyttra vinnubragða í kynferðisbrotamálum.
Lögmaður annars mannanna kærði konurnar tvær á móti fyrir rangar sakargiftir og aðra þeirra fyrir nauðgun og var sú ákvörðun harðlega gagnrýnd af öðrum lögmönnum og sérfræðingum í málefnum þolenda kynferðisofbeldis. Þær kærur voru að lokum felldar niður hjá lögreglu.
Seinna í mánuðinum sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur fimm unga menn af kæru um hópnauðgun á ungri stúlku í Breiðholti í fyrra. Málinu hefur nú verið áfrýjað en meðal þeirra sönnunargagna sem Héraðsdómur taldi benda þess að atvikið hefði átt sér stað með samþykki stúlkunnar var upptaka sem sýndi hana tala í síma og sækja þýfi sem komið hafði verið fyrir undir stiga. Sú afstaða varð uppspretta annarrar myllumerkisbyltingar á Beauty tips undir merkjum #daginneftir þar sem þolendur sögðu frá „órökréttum“ aðgerðum sínum eftir kynferðisofbeldi.
Samfélagsmiðlabyltingar ársins og hávær mótmæli í kjölfar málanna tveggja virðast hafa skilað meira en bara vilja til breytinga hjá yfirvöldum. Ákveðið hefur verið að lögmaður verði alltaf kallaður til þegar fórnarlamb nauðgunar leitar á neyðarmóttöku auk þess sem innanríkisráðuneytið hefur ákveðið að setja af stað greiningu á því sem betur má fara við meðferð nauðgunarmála.
Konur eru undirokaður hópur en innan þess hóps eru aðrir undirokaðir hópar sem börðust ötullega fyrir mannréttindum á árinu. Í pistli á mbl.is benti Embla Guðrúnar Ágústsdóttir til að mynda á að fatlaðar konur fögnuðu hreint ekki kosningaafmæli á árinu enda fékk fatlað fólk ekki formlega kosningarétt fyrr en árið 1934. Embla, ásamt Freyju Haraldsdóttur, fór einnig fyrir hópi fatlaðra kvenna í mótmælagöngu þar sem skömminni var skilað bæði fyrir hönd viðstaddra og þeirra kvenna sem ekki gátu sjálfar mætt vegna ýmissa hindrana sem samfélagið setur þeim.
Réttindabarátta hinsegin fólks er einnig nátengd baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna enda snýst hún að stórum hluta um að vinna gegn staðalímyndum um kyn. Þannig lögðu Samtökin '78 m.a. sitt á vogarskálarnar með samningi við Reykjavíkurborg um hinsegin fræðslu í grunnskólum og Trans Ísland með skemmtilegu myndbandi með algengum spurningum og svörum.
Konur í skemmtanageiranum áttu einnig stórgott og femínískt ár. Í janúar frumsýndi hópurinn Konubörn samnefnda leiksýningu en hún fjallar á kómískan hátt um veröld ungra kvenna. Sýningin hlaut frábærar viðtökur og það hlaut grín þeirra um tíðablóð einnig.
Reykjavíkurdætur héldu áfram femínískri vegferð sinni með útgáfu ýmissa laga og ögrandi sviðsframkomu. Þær voru viðfang holskeflu andfemínískra tísta eftir að rapparinn Emmsjé Gauti tjáði sig um tónlist þeirra og svöruðu þeim m.a. með því að sýna fram á fáránleika tístanna.
Kitty Von-Sometime og The Weird Girls gerðu sitt fyrir jákvæða líkamsímynd með stórkostlegu myndbandi við lagið „Dim The Lights“. Myndbandið bar titilinn #EmbraceYourself og sýndi íslenska, gullhúðaða kvenlíkama í öllum stærðum og gerðum.
Í ágúst var svo kvikmyndin Webcam eftir Sigurður Anton Friðþjófsson frumsýnd. Í íslenskri kvikmyndagerð þykir það tíðindum sæta ef ein kona er í aðalhlutverki, hvað þá tvær og miðað við snögga yfirferð á vef Kvikmyndir.is virðist það hreinlega ekki hafa gerst frá árinu 2004 þegar Dís var gefin út. Deila má um hvort Webcam sé femínísk í eðli sínu þar sem hún upphefur, án mikillar gagnrýni, mýtuna um hamingjusömu hóruna. Má nefna að sú mýta lifir góðu lífi og var m.a. haldið á lofti á árinu af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, háskólaprófessor sem lýsti vændi sem „atvinnutækifæri“ fyrir konur.
Stúlkur í 10. bekk Háteigsskóla létu ekki segja sér verkum þegar þeim þótti á sér brotið með boðum og bönnum kennara við skólann um klæðaburð. Hafði því verið beint til stúlkna í skólanum að klæðast ekki magabolum þar sem slíkur klæðnaður væri truflandi fyrir aðra nemendur. Bæði stúlkurnar og drengir í skólanum mótmæltu með því að mæta í magabolum í skólann þann 1. október.
Viðbrögð stjórnenda skólans voru að senda foreldrum bréf þar sem fram kom að starfsfólki þætti klæðnaðurinn ekki við hæfi og gagnrýndu skipuleggjendur Druslugöngunnar skólann fyrir skækjuskömm í kjölfarið.
Svo fór að skólastjórinn baðst afsökunar á athugasemdunum fyrir hönd sín og annars starfsfólk skólans.
Það voru einnig grunnskólanemendur sem áttu umtalaðasta gjörning ársins, ef frá er talinn #nakinn í kassa, því Hagaskóli kom sá og sigraði Skrekk með mögnuðum femínískum baráttuóð.
Segja má að Hagaskólastúlkurnar séu holdgervingur alls þess sem baráttur ársins á samfélagsmiðlum hafa staðið fyrir og hafa þær svo sannarlega hreyft við fólki með djörfung sinni. Það er því ekki úr vegi að enda þessa upprifjun á kvenskörungsárinu 2015 með lokaorðum ljóðs Unu Torfadóttur:
„Stelpur krefjast athygli
ekki reyna að hunsa okkur.
Stelpur krefjast tækifæra
ekki reyna að hindra okkur
Stelpur krefjast virðingar
ekki reyna að stoppa okkur.
Stelpur krefjumst jafnréttis
látum ekkert stoppa okkur!“