Talsverð seinkunn er á tveimur flugum Icelandair og einu flugi WOW air í kvöld, en vélar sem áttu að lenda 22:20 og 22:50 eru enn í loftinu. Hefur vél WOW verið beint til Akureyrar, en vélar Icelandair hringsóla enn yfir Keflavík.
Flugin sem um ræðir eru flug Icelandair frá Kaupmannahöfn og Heathrow í London. Átti fyrra flugið að lenda kl 22:20 og er með staðfestan lendingartíma klukkan 23:17. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðunni Flightradar24 lenti flugvélin aftur á móti klukkan 23:54, eftir eins og hálfs tíma hringsól yfir vellinum. Vélin frá London er enn í loftinu, en áætlaðu lendingartími hennar var 23:35 og staðfestur tími 23:50. Hún er heldur ekki lent enn sem komið er.
Vél WOW sem kemur frá Gatwick í London átti að lenda 22:40 en eftir talsvert hringsól við Keflavíkurflugvöll var stefnan tekin til Akureyrar og virðist hún ætla að lenda þar núna á eftir.
Samkvæmt upplýsingafulltrúa Isavia er mikil snjókoma á vellinum og þurfti að ryðja brautirnar. Staðfestir hann að fyrri vél Icelandair sé lent og að seinni sé á leið til lendingar. Flugmaður WOW hafi aftur á móti metið aðstæður þannig að best væri að fljúga til Akureyrar og lenda þar.
Uppfært 00:11: Samkvæmt Flightradar24 eru allar vélarnar þrjár nú lentar, Icelandair í Keflavík og WOW á Akureyri.