Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, átti á mánudaginn fund með stjórnendum Stofnunar múslíma á Íslandi og í Svíþjóð. Sagt er frá fundinum á heimasíðu forsetans, en þar segir að Ólafur Ragnar hafi rætt við Karim Askari og Hussein Aldaoudi, um starfsemi stofnunarinnar á Íslandi, aðlögun að íslensku samfélagi, menningu og lýðræðishefðum, umræður í íslenskum fjölmiðlum sem og um kaupin á Ýmis húsinu og fjárstyrk frá Sádi Arabíu og samskipti þeirra við sendiráð þess lands.
Í nóvember var talsvert í umræðunni að Sádi-Arabía myndi styrkja byggingu mosku hér á landi um 130 milljónir, en sendiherra landsins hafði tilkynnt um það. Tjáði Ólafur Ragnar sig um yfirlýsinguna í samtali við Ríkisútvarpið og sagði tíðindin koma sér á óvart.
„... ég vissi eiginlega ekki með hvaða hætti ætti að bregðast við. Þannig að ég varð eiginlega bara svo hissa, og svo lamaður, við þessa yfirlýsingu, að ég tók bara á móti henni, og settist svo niður og hugleiddi hana og taldi svo rétt að segja frá henni, eins og ég gerði,“ sagði forsetinn við Ríkisútvarpið í nóvember.