Friðargangan fór af stað við Hlemm rétt fyrir sex í kvöld og hélt áleiðis niður að Austurvelli. Eins og í fallegri bíómynd lét jólasnjórinn sjá sig um leið og gangan hófst og stemningin var hátíðleg eftir því. Hamrahlíðarkórinn og kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngja í göngunni að venju.
Að sögn blaðamanns mbl.is á staðnum hófst snjókoman um leið og gangan hófst. Segir hann að fremsti maður göngunnar hafi þá sagt stundarhátt að aðstæður gætu ekki orðið hátíðlegri.
Á meðan göngumenn fóru yfir Snorrabrautina stýrði lögreglan umferð við Hlemm, en blaðamaður segir að misvel hafi gengið að stýra stressuðum ökumönnum sem voru greinilega einhverjir á síðasta snúningi fyrir hátíðirnar.
Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Gengið er frá Hlemmi á slaginu kl. 18 með kerti í hendi til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum. Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Andri Snær Magnason rithöfundur flytur ávarp. Fundarstjóri er Tinna Önnudóttir Þorvalds leikkona. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.