Ketkrókur hafnaði jólakjötinu

Ketkrókur vill hjálpa börnum sem á þurfa að halda.
Ketkrókur vill hjálpa börnum sem á þurfa að halda. Teikning/Brian Pilkington

Ketkrókur tók nýverið upp minímalískan lífsstíl og mætti til byggða í nótt með heldur óhefðbundnar jólagjafir. Ís­lensku jóla­svein­arn­ir og UNICEF eru kom­in í óvenju­legt sam­starf og það með mbl.is.

 Ketkróki er mikið í mun að minnka vistspor sitt og hefur því til dæmis verið að prófa sig áfram með grænmetisfæði. Í mörg ár hefur Ketkrókur fengið gómsætt kjöt á hverjum jólum frá hinum og þessum – yfirleitt alltof mikið fyrir hann einan að klára. Í takt við nýjan og breyttan lífsstíl sinn vill hann núna breyta þessari hefð og óskar eftir gjöfum sem hann veit að nýtast vel: Sönnum gjöfum.

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti en þessi jólin hafa þeir þó ákveðið að taka höndum saman, bæta ráð sitt og hjálpa UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Mbl.is tekur þátt í samstarfinu og birtir fram að jólum myndband með jólasveini dagsins.

Ketkrókur vill hjálpa börnum sem á þurfa að halda og veit að eitt af því sem gegnir þar mikilvægu hlutverki er ungbarnavigt. Ein besta leiðin til að greina vannæringu og veikindi hjá ungum börnum er nefnilega að fylgjast vandlega með þyngd þeirra. Þá má grípa fljótt og örugglega inn í mælist börnin of létt.

Fólk er hvatt til að hjálpa Ketkróki að að gefa gjöf sem alltaf nýtist með því að gefa sanna gjöf hjá UNICEF. Sann­ar gjaf­ir eru lífs­nauðsyn­leg hjálp­ar­gögn fyr­ir bág­stödd börn, til dæm­is moskítónet, náms­gögn og jarðhnetumauk fyr­ir vannærð börn. UNICEF sér til þess að gjöf­in ber­ist til barna og fjöl­skyldna þeirra þar sem þörf­in er mest.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna – alltaf, alls staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka