Hringvegurinn lokaður vegna slyss

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Hringvegurinn í Öræfum er lokaður á einbreiðri brú yfir Hólá, austan við Hnappavelli, vegna umferðarslyss.

Ekki er vitað hvað lokunin varir lengi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Uppfært klukkan 15:52

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Höfn í Hornafirði er um að ræða árekstur tveggja ökutækja. Þegar mbl.is náði tali af lögreglu voru fyrstu björgunarmenn að mæta á vettvang.

Búið er að óska eftir aðstoð þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands vegna slyssins og er þyrla nú á leið á vettvang.

Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Uppfært klukkan 16:09

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands er TF-LIF, þyrla Gæslunnar, á leið á slysstað og er talið líklegt að hún lendi þar eftir um 30 mínútur eða laust eftir klukkan hálffimm.

Á þessari stundu er ekki vitað um ástand og fjölda þeirra sem voru í ökutækjunum tveimur.

Uppfært klukkan 16:40

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Höfn í Hornafirði skullu tvær bifreiðar saman á einbreiðri brú. Í báðum ökutækjum voru erlendir ferðamenn, alls sex manns. Ekki er vitað um líðan fólksins en um er að ræða alvarlegt bílslys.

mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert