Ótrúleg mildi að ekki fór verr

Fáskrúðsfjörður
Fáskrúðsfjörður mbl.is/Sigurður Bogi

Það er ótrúleg mildi að ekki fór verr er bíll fór fram af þverhnípi í sunnanverðum Fárskrúðsfirði síðdegis. Fallið er um 15 metrar en fólkið í bílnum slapp án alvarlegra meiðsla. Bíllinn er gjörónýtur, að sögn lögreglunnar á Fáskrúðsfirði.

Að sögn lögreglu gerði frostrigningu fyrir austan síðdegis og var vegurinn um Fárskrúðsfjörð nánast ófær vegna hálku. Fólkið var á leið upp brekku þegar bifreið þeirra snérist og rann á 40-50 km hraða fram af þverhnípinu, fór nokkrar veltur og hafnaði niður í fjöru.

Tvö voru í bílnum og voru þau flutt með sjúkrabifreið til skoðunar á heilsugæslunni á Fáskrúðsfirði en þau voru síðan flutt í Neskaupstað þar sem þau verða undir eftirliti á sjúkrahúsinu. Hvorugt þeirra er alvarlega slasað en var eðlilega mjög brugðið. Um er að ræða erlenda ferðamenn á bílaleigubíl sem var á ónegldum vetrardekkjum sem máttu sín lítið í þeim aðstæðum sem voru á þessum slóðum.

Athugasemd sett inn klukkan 20:59 

Eigandi bílaleigunnar sem á bílinn sem um ræðir hafði samband við mbl.is og sagði að bifreiðin hafi verið á nýjum vetrardekkjum sem sett voru undir bílinn í síðustu viku. Hann segir að viðskiptavinir bílaleigunnar geti valið um hvort þeir taki bíla á leigu með nagladekkjum eða ónegld vetrardekk að vetri til og það sé undir hverjum og einum komið hvort kosturinn verði fyrir valinu. Við þær aðstæður sem þarna voru hafi ekkert annað dugað en nagladekk.

Björgunarsveitarmenn fóru á björgunarsveitarbíl niður í fjöruna til þess að ná bílnum af vettvangi enda hefði sjórinn annars tekið hann er flæða fer að.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert