Heyrðu öskur fólksins í sjónum

Flóttamenn koma gjarnan að ströndum Grikklands í stórum hópum á …
Flóttamenn koma gjarnan að ströndum Grikklands í stórum hópum á illa búnum bátum - Mynd úr safni. AFP

„Niðri við sjóinn eru sumir að faðma fjölskyldur sínar og vini, dauðfegnir og létt að vera á landi, meðan aðrir standa og öskra á sjóinn að ástvinir séu enn fljótandi um.“ Þannig lýsir Hekla María Friðriksdóttir ástandinu við strendur eyjunnar Lesbos snemma á Þorláksmessumorgni. Í færslu á Facebook síðu sinni segir hún frá því hvernig hún kom flóttamönnum til bjargar ásamt hópi sjálfboðaliða eftir að gúmmíbátur þeirra sprakk á klettum og hvolfdi í kjölfarið. 

„6.30 á Þorlaksmessumorgun var ég vakin til ad kanna hvort bátur sem sást væri fullur af flóttafólki eða bara fiskibátur,“ segir í færslunni. „Skyndilega heyrum við háan hvell og ég bregst við, fullviss um að gúmmíbáturinn sem nálgaðist hafi sprungið á oddhvössum steinunum fyrir framan vitann. Við byrjum öll að hlaupa og heyrum öskur skelfingu lostinna sem lent hafa í sjónum,“ heldur hún áfram.

Björguðu ungu barni frá drukknun

Þá lýsir Hekla því hvernig félagi hennar bjargaði lífi fimm mánaða gamals barns sem hann fann með lungun full af vatni í flæðarmálinu. „Hann snýr sér til mín, hlær af létti og faðmar mig. Hann hafði fundið barnið liggjandi með andlitið í vatninu og það andaði ekki. Hann bjargaði lífi þessa barns.

Hún segir blessunarlega hafa verið lygnt þetta kvöld og áttu sjálfboðaliðarnir því gott með að synda út í og draga fólk á þurrt land. Alls var 31 flóttamaður um borð í gúmmíbátnum, en öllum var bjargað. 

„Hópur 8 óreyndra sjálfboðaliða frá Lighthouse relief bjargaði lífum þennan morgun. Um borð var 31, sem betur fer mjög fá börn. Að hugsa sér ef við hefðum ekki verið þarna eða ef veðrið hefði ekki verið svona gott,“ ritar Hekla í lok færslunnar. 

Hún hefur unnið sjálfboðavinnu á landamærum Evrópu frá októberbyrjun, en í færslunni segir hún mikla þörf á fleira fólki í björgunarstörf á grísku eyjunni. Hana má lesa í heild sinni hér að neðan.

Ef þið þekkið fólk með reynslu i bjorgunarstarfi við strendur, lifeguards eða aðra, það vantar fólk sem veit hvað það er...

Posted by Hekla María Friðriksdóttir on Thursday, December 24, 2015
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert