Frank væntanlegur til landsins

Búist er við að mesta rokið verði yfir hafinu austan …
Búist er við að mesta rokið verði yfir hafinu austan við landið en lægðin blæs þó hressilega á Austfirðinga á aðfaranótt miðvikudags. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Töluverð fyrirferð verður í storminum sem breska veðurstofan hefur nefnt Frank þegar hann nær til Íslands aðfaranótt miðvikudags og er búist við miklu hvassviðri á Austurlandi og Austfjörðum fram á miðvikudagsmorgun.

Lægðin en nú langt suður í hafi en siglir upp að Írlandi seinni partinn á morgun með stormi og roki. Að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, kemur hún inn á meginland Bretlands annað kvöld. Það séu hins vegar aðeins lægðarskilin sem fara þar yfir en sjálf miðja hennar gengur yfir austanvert Ísland daginn eftir. Lægðin verði mjög djúp og kröpp þó að versta rokið fari austan við landið.

„Það er vonskuveður á miðvikudeginum hérna. Aðfaranótt miðvikudags og um morguninn verður mjög hvasst á Austfjörðum og líka á Austurlandi,“ segir Þorsteinn.

Austan við lægðarmiðjuna er búist við vindstreng af styrk fárviðris, sem lemur þá á hafsvæðunum austur af Íslandi. Vindurinn vestan lægðarmiðjunnar verður yfir landinu og verður af styrk hvassviðris eða storms.

„Við erum að velta fyrir okkur hvort það verði há sjávarstaða á Austfjörðum og hvort það geti orðið vandræði út af því. Við erum að skoða það en það er ekki búið að senda út neina viðvörun ennþá,“ segir Þorsteinn.

Breska veðurstofan hefur formlega nefnt lægðina Frank en Þorsteinn segir að Veðurstofa Íslands hafi ekki tekið upp á því að nefna lægðir með þeim hætti þó að lægð sem gekk yfir landið í byrjun mánaðar hafi óformlega verið nefnd Diddú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert