Árið sem er að líða hefur sannarlega verið viðburðaríkt. Það hefur ekki alltaf verið dans á rósum en sem betur fer koma reglulega upp ástæður til að flissa framan í lífið.
Mbl.is tók saman furðulegustu fréttir ársins 2015.
Íslendingar hrisstu hausinn rækilega yfir ferðamönnum þetta árið. Nóg var af þeim að taka og þó svo að flestir hafi eflaust hegðað sér vel fór meira fyrir þeim sem sýndu af sér sérkennilega hegðun.
Þannig ætlaði allt um koll að keyra þegar listamaðurinn Marco Evaristti litaði Strokk rauðan við sólarupprás þann 24. apríl. Evaristti var sektaður en fór af landi brott án þess að borga og sakaði Íslendinga um hræsni fyrir að ergja sig yfir gjörningnum.
Fréttir mbl.is
Túristataðið var einnig vinsælt umræðuefni á kaffistofum landsins enda hafði skortur á salernisaðstöðu það í för með sér að ferðamenn gengu örna sinna á ótrúlegustu stöðum. Hneykslunin á ferðamannaflórnum náði þó hámarki þegar túristi reyndi að losa sig við klósettpappír með því að kveikja í honum en varð þess í stað valdur að sinueldi í Borgarfirði.
Frétt mbl.is:
Pissa í hvert skúmaskot á Íslandi
Það var ekki mikið þrifalegra flugstöðvarfljóðið sem hreiðraði um sig á Leifsstöð í júní. Konan bjó á flugvellinum í viku þar til öryggisverðir tóku eftir henni en þó svo að hún hafi vissulega haft aðgang að salerni er ekki reiknað með því að hún hafi þrifið sig mikið, enda engar sturtur á svæðinu. Konan gaf litlar skýringar á veru sinni. Hún virtist ekki í andlegu ójafnvægi og hafði næg fjárráð til að halda áfram för sinni sem hún og gerði eftir afskipti lögreglu.
Frétt mbl.is:
Flugstöðvarfljóðið kom aldrei inn í landið
Það er ekki hægt að minnast á skrítna túrista án þess að ræða um hinn skrautlega Akasha sem blaðamaður mbl.is leitaði uppi eftir að sá fyrrnefndi birtist á forsíðu Morgunblaðsins. Klæðaburður Akasha vakti mikla athygli sem og lífstíll hans en á myndinni mátti meðal annars sjá yfirhöfn hans, nepalskan lambafeld. Hann hafði verið á flakki í fimm ár og gat ekki útskýrt hvernig hann fjármagnar ferðalög sín.
Frétt mbl.is:
Hefur ferðast um heiminn í fimm ár
Og enn af ferðalöngum því nokkuð var um loðna laumufarþega á skipum þetta árið.
Þar má t.a.m. nefna sjóköttinn Særós sem laumaðist um borð á frystitogarann Gnúp GK-011 og eyddi tveimur mánuðum á sjó í góðu yfirlæti.
Mörgum gæti þótt laumufarþegarnir sem komu til Siglufjarðar frá Belgíu um borð í dönsku skipi öllu ófrýnilegri en þar var um að ræða þrjár litlar leðurblökur sem höfðu falið sig í farmi skipsins.
Verkamenn sem unnu við uppskipunina sáu dýrin. Eitt þeirra og það minnsta forðaði sér frá borði og flaug eitthvað út í buskann. Hin tvö voru gómuð og sett í kassa.
Fréttir mbl.is:
Sjókisinn Særós laumaðist um borð
Leðurblökur fundust á Siglufirði
Önnur sérkennileg frétt úr dýraríkinu var kattaránið í Ölfusi í byrjun árs þar sem Bengal köttunum Ísabellu Sóley, Platinum Prince og Kysstu Lífið Lukku var rænt bænum Nátthaga. Kötturinn Kiss Me slapp en var í miklu áfalli eftir ránið. Þjófurinn skildi eftir brjóstahaldara í stærð 34D og þröngar buxur með blettatígursmynstri. Kettirnir fundust sem betur fer óskaddaðir í heimahúsi í Reykjavík.
Frétt mbl.is:
Bengal kettirnir komnir heim
Þau vissu hvert þau áttu að fara
Öllu átakanlegri kisufrétt var sú af köttunum 50 sem haldið var í iðnaðarhúsnæði við bágar aðstæður. Þurfti lögregla að fá dómsúrskurð til að framkvæma eftirlit á staðnum en umráðamaður húsnæðisins var ósamvinnuþýður við vörslusviptingu og þurfti að handtaka hann. Kettirnir voru í afar misjöfnu ástandi og þurfti að lóga tveimur þeirra í kjölfarið. Dýrahjálp Íslands tók að sér 30 ketti og fann þeim fósturheimili og þó svo hafa þeir nú allir fundið malið sitt aftur.
Fréttir mbl.is:
Missti augað en er byrjuð að mala
Mest lesna furðudýrafrétt ársins var hinsvegar ekki af köttum heldur af hinum framliðna hundi Gosa sem sneri aftur í formi vettlinga. Mynd sem íslensk stúlka deildi af sér í vettlingunum gekk manna á milli á Twitter og vakti mikla furðu. Margir skildu myndina sem svo að Gosi hefði verið fláður eftir dauðann og umbreytt í lúffurnar góðu en svo var þó ekki því í ljós kom að þær höfðu verið prjónaðar úr hárum sem féllu úr feldi hundsins á meðan hann var enn í lifanda lífi.
Fréttir mbl.is:
Varð Gosi að vettlingum?
Sárnar viðbrögðin við vettlingunum.
Að lokum er ekki komist hjá því að nefna selskópinn sem fannst á tjaldsvæði í Laugardalnum í ágúst. Sá hafði sýnt af sér einbeittan brotavilja og strokið úr Húsdýragarðinum. Kópurinn fór nokkuð hratt yfir og reyndi hvað hann gat að komast undan og bíta í laganna arm.Náðist hann þó að lokum og var fylgt aftur til síns heima. Fréttin vakti mikla kátínu en því miður hlaut kópurinn dauðarefsingu fyrir glæpinn. Honum var lógað og hann nýttur í refafóður.
Frétt mbl.is:
Einbeittur brotavilji strokukópsins
Um 40 kópar aflífaðir á 20 árum
Matarmenning á Íslandi vakti athygli langt út fyrir landsteinana í janúar en það var þó ekki hin klassísku svið eða hrútspungar sem fengu lesendur til að geifla sig heldur síðasti McDonald‘s hamborgarinn. Borgarinn er frá árinu 2009 og er til sýnis á Bus Hostel í Hlíðunum og raunar er hann í beinni útsendingu á veraldarvefnum þar sem lesendur geta fylgst með honum rotna í rauntíma. Ástand hamborgarans og það að hann sé geymdur er nógu sérstakt en sú staðreynd að óprúttnir gestir hostelsins hafa stolist til að éta frönskurnar er líklega einkennilegast af öllu.
Fréttir mbl.is:
Síðasti McDonald‘s hamborgari Íslands til sýnis
Hálf milljón hefur horft á hamborgarann
Það vakti mikla athygli hér á landi í marsmánuði þegar að lögregluyfirvöld í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum lýstu eftir íslenskum ríkisborgara, Alfreð Erni Clausen. Það er ekkert nýtt að Íslendingar fremji glæpi í útlöndum en það þykir furðu sæta að saksóknari í Kaliforníu hafi látið Interpol lýsa eftir Alfreð þrátt fyrir að það liggi fyrir nákvæmlega hvar hann er, nefnilega á Íslandi. Alfreð var í mars sakaður um að hafa svikið sex milljarða út úr hópi fólks en þrátt fyrir það hafði engin handtöku- eða framsalsbeiðni borist íslenskum yfirvöldum í júlí. Hann er enn á lista Interpol. Annað furðumál tengt Alfreð sem tengist ekki meintum glæpaferli er að hann er fasteignasalinn sem fékk það verkefni að selja barrokkhöllina í Breiðholtinu.
Fréttir mbl.is:
Alfreð Örn reyndi að selja barrokkíbúðina
Fréttin af því að boðað hafi verið til feluleiks í IKEA í apríl er nokkuð furðuleg út af fyrir sig og enn furðulegra er að hann fór vel fram þar sem um 300 manns tóku þátt. Ótrúlegast af öllu var hinsvegar sú frétt að þegar til kastanna kom fundust feluleikstjórarnir þær Ellen Rosdahl og Megan Dunley ekki þrátt fyrir að hafa ætlað að setja reglur, stjórna leiknum og skipta í hópa. Því má segja að þær hafi unnið feluleikinn.
Frétt mbl.is: Feluleiksstjórarnir ófundnir
Eitt það sturlaðasta sem gerðist á vettvangi ástarinnar á árinu var hinsvegar þegar fólk í felum fannst... á framhjáhaldssíðunni Ashley Madison nánar til tekið.
Nokkuð var um íslensk netföng á listanum sem lekið var af tölvuþrjótum en eitt skar sig úr, netfang fjármálaráðherrans Bjarna Benediktssonar. Ástæðan fyrir því að sú frétt ratar á þennan lista er þó ekki sú staðreynd ein og sér heldur notendanafnið sem tengt var við netfangið.
IceHot1 er svo sannarlega eitt af orðum ársins enda fór það víða á Twitter, varð heiti á ís og fór á leik Íslands og Hollands.
Fréttir mbl.is:
Icehot1 mættur á leikinn
Skoðuðu síðuna fyrir forvitnissakir