Þak fauk af húsi á Egilsstöðum

Frá aðgerðum björgunarsveitarmanna á Egilsstöðum í nótt.
Frá aðgerðum björgunarsveitarmanna á Egilsstöðum í nótt. Ljósmynd Kjartan Benediktsson, Björgunarsveitinni Héraði

Björgunarsveitin Hérað á Egilsstöðum var kölluð út á sjötta tímanum í morgun þegar þak fauk af verkstæðisbyggingu í bænum. Þakið fór í stórum flekum af húsinu og lenti á bifreiðum er stóðu nærri. Þegar björgunarsveitin kom á staðinn var ljóst að lítið var hægt að gera annað en að hindra að sá hluti þaksins sem kominn var niður ylli meiri skemmdum. Eigandi verkstæðisins fergði hann með snjó og sá björgunarsveitin um að loka svæðið af á meðan. Ástandið var metið svo að ekki væri óhætt að fara upp á þakið til að forða frekara foki.

Moka snjó af þaki heilsugæslunnar á Dalvík

Leiðindaveður er á Héraði en þó ekki svo mikill vindur að foktjóna hafi orðið vart annars staðar í bænum, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu. Svo virðist sem sterkur vindstrengur hafi myndast við verkstæðið með fyrrgreindum afleiðingum. Hins vegar hefur rignt mikið í nótt og farnar að berast tilkynningar um að flætt hafi inn í hús. Slökkvilið staðarins er við störf með dælur og verið er að ræsa björgunarsveitina til aðstoðar í slíkum verkefnum.

Björgunarsveitin Dalvík vinnur þessa stundina að því að moka snjó af þaki heilsugæslunnar en tilkynning barst í morgun um að þak hennar væri farið að leka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert