Bresku ferðamennirnir sem þyrla Landhelgisgæslunnar átti að sækja í gönguskálann Emstrur við Botnaá voru orðnir kaldir og hraktir þegar þeir höfðu samband við Landsbjörg og óskuðu eftir aðstoð.
Þeir höfðu verið á göngu yfir miðhálendið.
Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er mikill krapi er á svæðinu endar er búið að rigna mikið að undanförnu. Veðurspáin er einnig slæm.
Ákveðið var að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar á eftir þeim, því mjög seinfarið er að fara til þeirra á bílum vegna erfiðra aðstæðna.
Í frétt Morgunblaðsins á Þorláksmessu kom fram að gönguhópurinn The Coldest Crossing samanstæði af þremur ungum Bretum sem ætluðu að eyða jólunum á hálendi Íslands og ferðast á skíðum yfir landið á 18 dögum. Kapparnir lögðu á Þorláksmessu af stað úr Hrauneyjum áleiðis í Landmannalaugar, þar sem þeir ætluðu að eyða aðfangadagsmorgni í heitum laugum.
Á Þorláksmessu slógust svo tveir kvikmyndagerðarmenn í för með piltunum en mynda átti ferðina alla með kvikmyndavélum og drónum.
Leiðangursstjórinn Charlie Smith sagði þá hafa lent í nokkrum hremmingum á leiðinni, en í byrjun ferðarinnar veiktist einn þeirra í lungum og varð hann þar af leiðandi að snúa heim. Annan félagi kól á tám og þurfti því að kalla til björgunarsveit sem náði í ferðalangana inn í Nýjadal.