Höfnin eins og eftir sprengjuárás

Frá Breiðdalsvík.
Frá Breiðdalsvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Hafnarsvæðið er bara ein rúst. Það hafa slitnað upp flotbryggjur með bátum og við höfum verið að bjarga bátunum. Hafnarhús þar sem sveitarfélagið er með aðstöðu eru bara í drasli eins og eftir sprengjuárás. Sjórinn er búinn að ganga yfir þetta í alla nótt. Það brýtur svo á þarna.“

Frétt mbl.is: Veðrið hefur náð hámarki

Þetta segir Indriði Margeirsson, formaður Björgunarsveitarinnar Einingar í Breiðdalsvík, í samtali við mbl.is, en djúp lægð gekk yfir landið í nótt og í morgun sem haft hefur í för með sér óveður á Austurlandi. Klæðning hefði ennfremur fokið af stafninum á Hóteli Staðarborg og þjóðvegurinn um Meleyri væri ónýtur. Klæðning hafi bæði fokið af veginum og hann færst til. „Sjórinn gekk yfir allt þarna. Ég hef aldrei séð svona sjávarstöðu í þau 35 ár sem ég hef búið hér.“

Tjónið hleypur líklega á tugum milljóna

Verst hefur ástandið verið á Eskifirði en þar var stjörnuvitlaust veður í morgun að sögn Þórlindar Magnússonar hjá Björgunarsveitinni Brimrún á Eskifirði. Skemmdir hafa orðið á fiskiskipinu Aðalsteini Jónssyni SU í höfninni. Bergmann Þór Kristjánsson, formaður björgunarsveitarinnar, segist telja að skipið hafi nuddast upp við höfnina en það mál sé í föstum skorðum. Þakplötur fóru af einu húsi og veggklæðningar af nokkrum öðrum og hefur allur tiltækur mannskapur verið að störfum auk liðsauka frá Reyðarfirði.

Sjór hefur flætt upp á land við alla ströndina við Eskifjörð og miklar skemmdir hafa orðið á sjóhúsunum svonefndu. Eitt þeirra er ónýtt að sögn Bergmanns og annað mjög illa farið. Þá eru tvær bryggjur við húsin farnar. Önnur er komin upp á aðalgötuna en hitt marar í sjónum. „Vegurinn fyrir utan bæinn, sem sagt út að sveitinni, hefur grafist í sundur og er allur meira eða minna tættur. Aðeins er farið að grafa úr veginum fyrir innan bæinn sem liggur út á Reyðarfjörð.“ Tjónið hlaupi án efa á milljónum ef ekki tugum milljóna.

Klæðningar og þök af nokkrum húsum

„Það er búið að ganga talsvert á hjá okkur í morgun. Þetta var rólegt framan af í nótt en síðan varð einhver breyting á vindátt um klukkan sjö í morgun og þá gekk meira á. Það eru farnar klæðningar á nokkrum húsum og tvö þök. Síðan hefur verið rafmagnslaust.“ Þetta segir Hafþór Eiríksson, formaður Björgunarsveitarinnar Gerpir í Neskaupsstað, í samtali við mbl.is  Neskaupstaður gengur fyrir varafli sem annar ekki öllum bænum að sögn Hafþórs og er rafmagn skammtað. Enn eru að berast beiðnir um aðstoð segir hann.

Eins og mbl.is greindi frá í morgun losnuðu þakplötur af bílskúr á Þórshöfn í morgun og af húsi í Þistilfirði auk þess sem girðing fauk í veðrinu. Að sögn Karls Ásberg Steinsson, formanns Björgunarsveitarinnar Hafliða á Þórshöfn, hefur engar frekari tilkynningar borist. Veðrið væri að gangan niður en vindurinn virtist vera að snúast og hann gæti þá aukist.

Eina tjónið á Djúpavogi brotin rúða

Seyðfirðingar hafa sloppið vel að sögn Guðna Sigmundssonar, formanns Björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði. Þar fauk karastæða um koll við frystihúsið á staðnum en ekki hafa borist tilkynningar um annað fok. Aðspurður segir hann vindinn vera að lægja. Íbúar Djúpavogs hafa að sama skapi sloppið nokkuð vel en eina tilkynnta tjónið er rúða sem fór úr glugga að sögn Inga Ragnarssonar, formanns Björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi.

Hliðstæða sögu er að segja um Borgarfjörð eystri að sögn Skúla Sveinssonar, varformanns Björgunarsveitarinnar Sveinunga. Þar hafa íbúarnir sloppið að mestu. Eina tjónið sem tilkynnt hefur verið um er að þakplötur fuku af húsi á bænum Njarðvík í hreppnum. Eitt trampólín fauk á Egilsstöðum og vatn flæddi niður í tvo kjallara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert