„Ljóst að mikið tjón hefur orðið“

Frá Eskifirði.
Frá Eskifirði. Ljósmynd/Jens G. Helgason

Óveðrið er tekið að ganga niður í Fjarðabyggð, þar sem það kom einna verst niður af öllum stöðum á landinu í morgun, og er ljóst að bæjarbúar eiga mikið verk fyrir höndum við að hreinsa til eftir lægðina og lagfæra það sem skemmdist.

Björgunarsveitir eru enn í viðbragðsstöðu, en þar sem hluti björgunarsveitamanna björgunarsveitarinnar Brimrúnar á Eskifirði höfðu hafið flugeldasölu þegar mbl.is hringdi í sveitina fyrr í dag, þá er óhætt að fullyrða að álag björgunarsveitarinnar sé búið að dragast mikið saman frá því sem var þegar lægðin var sem dýpst snemma morguns.

Þakklátur þeim sem komið hafa að málum

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir það augljóst að óveðrið sé eitt það versta sem gengið hefur yfir á Austurlandi í manna minnum, enda hafi bryggjur sem staðið hafa af sér sjó og veður í um hundrað ár, verðið rutt um koll í óveðrinu.

„Við eigum björgunarsveitum, lögreglu, bæjarstarfsmönnum, og slökkviliði og öðrum þeim sem komið hafa að málum, mikið að  þakka við þá gríðarlegu vinnu sem þetta góða fólk hefur innt af hendi við að bjarga ýmsum málum á síðastliðnum sólarhring. Án þessa starfs værum við mun verr sett og er okkur efst í huga þakklæti til þessa fólks sem hefur unnið gríðarlega gott starf,“ segir Páll Björgvin.

Hann hefur engar fréttir heyrt af því að fólk hafi slasast í óveðrinu, og segir hann það mjög ánægjulegt.

„En það er ljóst að mikið tjón hefur orðið,“ segir hann og bætir við að við fyrstu sýn virðist tjónið hafa orðið mest við ströndina. „Á hafnarmannvirkjum, grjótvörnum, á vegum og götum við strendurnar og flætt hefur inn í hús,“ segir Páll en eins segist hann hafa heyrt af skipaskemmdum.

„Við höfum hafið tjónamat og gerð aðgerðaráætlunar Fjarðabyggðar er hafin, og mun bæjarráð Fjarðabyggðar fjalla um það tjón sem orðið hefur á næstu dögum,“ segir hann.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Ljósmynd/Fjarðabyggð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert