Þrír handteknir, tveggja leitað

Vopnað rán var framið í útibúi Landsbankans við Borgartún í …
Vopnað rán var framið í útibúi Landsbankans við Borgartún í dag. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Um klukkan 13:20 í dag var lögreglu tilkynnt að vopnað bankarán hefði verið framið í útibúi Landsbankans við Borgartún. Tveir menn sem voru vopnaðir skotvopni og hníf höfðu í hótunum og komust á brott með óverulega upphæð reiðufjár. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði í samtali við mbl.is að starfsfólki og viðskiptavinum bankans sem urðu vitni að ráninu hefði verið verulega brugðið. Starfsfólki var boðin áfallahjálp og útibúinu lokað. Enginn meiddist í ráninu.

Steinþór ræðir við fjölmiðla í bankanum í dag.
Steinþór ræðir við fjölmiðla í bankanum í dag. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á þriðja tímanum óskaði lögregla eftir upplýsingum um mennina tvo og sendi myndir af þeim úr eftirlitsmyndavél bankans á fjölmiðla. Þar kom fram að mennirnir hefðu flúið útibúið á stolnum sendiferðabíl sem fannst síðan í Barmahlíð. Í tilkynningu lögreglu var fólki bent á að hafa ekki af­skipti af mönn­un­um held­ur láta lög­reglu vita um ferðir þeirra.

Þetta eru mennirnir tveir sem frömdu ránið.
Þetta eru mennirnir tveir sem frömdu ránið.
Meðlimur tæknideildar lögreglunnar rannsakar bifreiðina í Barmahlíðinni.
Meðlimur tæknideildar lögreglunnar rannsakar bifreiðina í Barmahlíðinni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Bifreiðin skoðuð. Hún var síðan flutt af tæknideildinni af staðnum …
Bifreiðin skoðuð. Hún var síðan flutt af tæknideildinni af staðnum til rannsóknar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson


Frá Barmahlíðinni voru spor mannanna tveggja rakin að Öskjuhlíð og rúmlega 16 í dag var greint frá því að vopnuð sérsveit ríkislögreglustjóra hefði hafið leit að mönnunum á svæðinu. Lögregla umkringdi Öskjuhlíðina og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug lágt yfir og beindi ljóskösturum niður.

Þyrla Landhelgisgæslunnar yfir Öskjuhlíð
Þyrla Landhelgisgæslunnar yfir Öskjuhlíð mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Sérsveitarmenn undirbúa leitina.
Sérsveitarmenn undirbúa leitina. mbl.is/Júlíus

Á sjöunda tímanum bárust fregnir af því að leit í Öskjuhlíð væri hætt. Þær fréttir fengust þó ekki staðfestar af Kristjáni Ólafi Guðnasyni yfirlögregluþjóni, sem fer með rannsókn málsins. Hann staðfesti þó að tveir hefðu verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins en tveggja væri enn leitað.

Frá Öskjuhlíð fyrr í dag.
Frá Öskjuhlíð fyrr í dag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Í tilkynningu sem barst frá Kristjáni rétt fyrir klukkan hálftíu í kvöld var staðfest að tveir menn hefðu verið handteknir í heimahúsi í Reykjavík um klukkan sjö og sá þriðji um áttaleytið. Samkvæmt tilkynningunni er tveggja manna þó enn leitað í tengslum við rannsókn málsins og óskaði lögregla eftir að komast í samband við þá, en þeir eru taldir geta veitt upplýsingar um málið.

Þar kom einnig fram að meint vopn sem notuð voru í ráninu hefðu fundist. Þau voru eftirlíking af skammbyssu og hnífur. Ekki er von á frekari upplýsingum í kvöld.

Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert