„Staðan er bara slæm. Smábátahöfnin er að hluta til brotin upp og þar liggja bátar undir skemmdum. Það eru farnar hérna smábátabryggjur í útbænum og þök og klæðningar að fjúka af húsum,“ segir Þórlindur Magnússon hjá Björgunarsveitinni Brimrún á Eskifirði í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann að um sé að ræða allavega 2-3 hús.
Spurður um veðrið á staðnum segir Þórlindur: „Það er í einu orði sagt stjörnuvitlaust. Mér sýnist á útköllum björgunarsveita að þetta sé einna verst hjá okkur. Við erum með allan okkar tiltæka mannskap á fullu í verkefnum og nágrannar okkar á Reyðarfirði eru að freista þess að komast til okkar.“ Lögreglan á Austurlandi hefur beint því til fólks að vera ekki á ferli nema nauðsyn krefji og þá einkum á Eskifirði og nágrenni.
Þakplötur fuku af bílskúr á Þórshöfn og þakkantur af húsi á sveitabæ í nágrenni þorpsins að sögn Karls Ásbergs Sveinssonar, formanns Björgunarsveitarinnar Hafliða. Þá fauk girðing við eitt hús á staðnum og þakplötur losnuðu af skrifstofuhúsnæði Alcoa Fjarðaráls á Reyðarfirði. Há sjávarstaða er meðal annars á Fáskrúðsfirði og vakta björgunarsveitarmenn höfnina. Myndbandið hér að neðan er frá Strandgötu á Eskifirði.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu að björgunarsveitir á Austurlandi hafi bíða verið kallaðar út en ástandið sé einna verst á Eskifirði. Þar séu þök að fara af tveimur eða þremur húsum og smábátahöfnin að liðast í sundur. Skemmdir hafi orðið á tveimur bryggjum. Þá sé ýmislegt rusl og drasl fjúkandi um bæinn. Verið sé að senda liðsauka frá Reyðarfirði til Eskifjarðar.
„Annars staðar á Austfjörðum hefur ástandið ekki verið eins slæmt. Á Reyðarfirði fauk klæðning af skrifstofubyggingu, á Fáskrúðsfirði fuku fiskkör og trampólín, þakkantur losnaði af bæ í Þistilfirði, björgunarsveitirn á Höfn tryggði og á Vopnafirði voru niðurföll hreinsuð þar sem flæddi inn í kjallara húss,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Þá kemur fram að á áttunda tug björgunarmanna hafi tekið þátt í aðgerðum næturinnar á Austurlandi eða staðið vaktina í húsi tilbúnir til að takast á við afleiðingar veðursins.
Myndbandið hér að neðan er frá Mjóeyrarhöfn við álverið í Reyðarfirði.