Tilkynningar eru farnar að berast um þakplötur sem eru að losna á húsum á Austurlandi en einkum hafa slíkar tilkynningar borist á Eskifirði, Reyðarfirði og Þórshöfn samkvæmt upplýsingum frá neyðarlínunni.
Þakplötur fuku af bílskúr á Þórshöfn og þakkantur á húsi á sveitabæ í nágrenni þorpsins að sögn Karls Ásbergs Sveinssonar, formanns Björgunarsveitarinnar Hafliða. Þá fauk girðing við eit hús á staðnum. Þá losnuðu þakplötur af skrifstofuhúsnæði á Reyðarfirði.
Há sjávarstaða er meðal annars á Fáskrúðsfirði og vakta björgunarsveitarmenn höfnina. Ólafur Atli Sigurðsson, formaður Björgunarsveitarinnar Geisla, segir engin alvarleg mál hafa enn komið upp í bænum.
Lögreglan á Austurlandi hefur sent frá sér tilkynningu þar sem því er beint til fólks að vera ekki á ferðinni að óþörfu vegna óveðursins sem gengur yfir landshlutann. Meðal annars hvassviðris, rigningar og sjávarstöðu sem sé há nú í morgunsárið. Er þessu sérstaklega beint að íbúum Eskifjarðar og nágrennis.
Myndbandið hér að neðan er frá Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði nú undir morgunn.
Fréttin verður uppfærð
Untitled from Benedikt Jonsson on Vimeo.