Flóð og skriður hafa valdið talsverðum skemmdum á vátryggðum eignum hjá sveitarfélögum og einstaklingum í lægðinni sem ríður yfir Austurland. Að sögn Huldu Ragnheiðar Árnadóttur, framkvæmdastjóra Viðlagatryggingar Íslands, er ljóst að tjón hafi orðið á opinberum mannvirkjum hjá sveitarfélögum sem vátryggð séu hjá Viðlagatryggingu Íslands og eins sé tjón vegna krapaflóðs á bænum Aðalbóli í Hrafnkelsdal.
„Það eru mögulega fleiri tjón sem við förum ekki í að greina fyrr en atburðurinn er yfirstaðinn,“ segir Hulda en Viðlagatrygging Íslands sendi í gær fulltrúa til að meta aðstæður í kjölfar atburðanna á austurlandi.
Hulda segir að nú sé unnið að því að finna matsmenn til að senda austur fyrstu viku á nýju ári til þess að greina atburðinn betur. „Við byrjum á að meta tjónið í annarri viku í janúar, ekki seinna,“ segir Hulda en hún getur ekki svarað til um það á hvaða bili tjónið hleypur.
Dvínandi áhrif Suðurlandsskjálftans
Hulda segir að lítið hafi verið greitt út af tjónabótum hjá Viðlagatryggingum Íslands á þessu ári miðað við undanfarin ár.
„Það er fyrst og fremst vegna þess minni atburða á þessu ári, engir jarðskjálftar, eldgos eða annað slíkt. Þetta er fyrsta árið sem lítið er af tjónum vegna Suðurlandsskjálftans,“ segir Hulda en árin 2008 til 2010 voru stór ár hjá Viðlagatryggingu vegna skjálftans. Smám saman hefur dregið úr útgreiðslum vegna enda sé búið er að ganga frá bótauppgjöri í nær öllum tjónamálum.
Skylda er að greiða viðlagaiðgjald af öllum fasteignum á Íslandi og sjá vátryggingafélög um að innheimta iðgjald af fólki og skila greiðslunni til Viðlagatrygginga Íslands. Hulda segir að að Viðlagatrygging Íslands sjái hins vegar um allt tjónamat og borgi tjónabæturnar beint út, öll samskipti við tjónþola séu beint við Viðlagatryggingu og fólk tilkynni um tjón í gegnum heimasíðuna.
Hún segir hugmyndina með að senda fulltrúa austur í gær hafa verið að átta sig á aðstæðum svo hægt væri að veita heimamönnum ráðleggingar um hlutverk Viðlagatrygginga Íslands vegna tjónsins, svo þeir viti í hvaða tilvikum þeir eigi að snúa sér til Viðlagatryggingar.