Veðrið hefur náð hámarki

Ljósmynd/Landsbjörg

„Það má segja að veðrið hafi náð hámarki og það sé svona að draga úr því núna austanlands. En að sama skapi á meðan dregur úr veðrinu austanlands þá er vindurinn að rjúka upp fyrir norðan. Það má alveg búast við einhverjum 20-28 metrum á sekúndu þar og hviðum við fjöll jafnvel yfir 40 metrum,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en djúp lægð hefur gengið yfir landið í nótt og morgun.

Lægðin hefur einkum valdið mjög slæmu veðri á Austurlandi og hefur orðið talsvert tjón af völdum þess. Einkum á Eskifirði eins og mbl.is hefur fjallað um. Birta segir þó ekki búist við því að veðrið verði jafn slæmt á Norðurlandi og það hefur verið fyrir austan. Einkum mun veðursins gæta á Tröllaskaga, við Skagaströnd og út á Húnaflóa. 

Spurð hvernig veðurspáin hafi ræst segir Birta: „Hún hefur í rauninni ræst nokkuð vel. Það er ekkert sem hefur í rauninni komið okkur á óvart. Þetta hefur nánast verið alveg bundið við Austurland og alveg merkilegt í raun hvað aðrir landshlutar hafa sloppið vel. Miðja lægðarinnar fór nokkurn veginn yfir mitt landið eins og við bjuggumst við og er í raun komin út af landinu núna.“ Búast megi við að draga fari verulega úr veðrinu upp úr hádeginu.

Spurð um fréttir erlendra miðla í gær um að um yrði að ræða sögulegan storm hér á landi segir Birta að án þess að verið sé að gera lítið úr veðrinu sé ekki um að ræða veður sem ekki hafi sést áður hér á landi. Óheppileg sjávarstaða fyrir austan hafi þó gert stöðuna enn verri en ella. Stormurinn sem slíkur hafi hins vegar ekki verið neitt sögulegur. „En auðvitað er um að ræða mjög vont veður fyrir austan, það má alls ekki draga úr því.“

Myndbandið hér að neðan sýnir aðstæður í Hornafjarðarhöfn í nótt en þá losnaðir bátur frá höfninni og tveir aðrir nudduðust saman.

Bryggjan í nótt 29/12-2015

Posted by Ingólfur Guðni Einarsson on Tuesday, December 29, 2015
Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur.
Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert