Þjóðvegur 1 er lokaður frá Höfn í Hornafirði að Fáskrúðsfirði og frá Reyðarfirði í Mývatnssveit samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Sömuleiðis er vegurinn frá Reyðarfirði í Neskaupstað lokaður sem og vegirnir um Fjarðarheiði, Vatnsskarð eystra og Vopnafjarðarheiði.
Víðar hefur snjóað um sunnanvert landið og þar er krapi eða hálka á vegum. Til að mynda er krapi á Hellisheiði og í Þrengslum en Reykjanesbraut og stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu eru að mestu greiðfærar. Óveður er undir Eyjafjöllum.
Vestanlands eru hálkublettir, hálka eða krapi á vegum. Þæfingur er víða í uppsveitum Borgarfjarðar. Hálka er á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku. Á Vestfjörðum er hálka á vegum en flughálka er frá Súðavík í Skötufjörð og þæfingur á Kleifaheiði.
Vegir á Norðvesturlandi eru yfirleitt vel færir þótt sumstaðar sé nokkur hálka, einkum á fjallvegum. Á Norðausturlandi er hálka og hálkublettir.
Á Austurlandi er þjóðvegur 1 lokaður frá Höfn í Fáskrúðsfjörð og frá Reyðarfirði í Mývatnssveit. Flughálka er í Jökuldalshlíð og Hróarstungu. Suðausturströndin er greiðfær frá Höfn í Hvolsvöll. Óveður er við Höfn, Kvísker og við Vík í Mýrdal.