Viðbragðshópur vegna vonskuveðurs

Víða hefur flætt yfir vegi á Austurlandi.
Víða hefur flætt yfir vegi á Austurlandi. Ljósmynd/Eiður Ragnarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur óskað eftir því að kallaður verði sem fyrst saman hópur ráðuneytisstjóra, fulltrúa almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra, Viðlagatryggingar og fleiri aðila til að fara yfir þá stöðu sem skapast hefur á Austurlandi vegna ofsaveðurs sem þar hefur gengið yfir. Aðstæður hafa meðal annars valdið óvenjulegum sjávarflóðum, einkum á Eskifirði og Fáskrúðsfirði.

Hópnum er ætlað að meta hvernig bregðast megi við, meðal annars í samráði við heimamenn, en upplýsingar um hamfarirnar hafa þegar borist forsætisráðuneytinu og unnið er að öflun frekari gagna.

,,Þarna hafa átt sér stað mjög óvenjulegir atburðir sem nauðsynlegt er bregðast við. Við munum fara yfir stöðuna með viðeigandi stofnunum og meta hugsanleg viðbrögð. Það munum við gera í góðri samvinnu við heimamenn. Enn á ný höfum við orðið vitni að dugnaði og hugrekki björgunarsveita og annarra sem komið hafa að málum og fyrir það erum við þakklát,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert