Fleiri handteknir vegna ránsins

Frá útibúi Landsbankans í Borgartúni í gær.
Frá útibúi Landsbankans í Borgartúni í gær. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fimm menn eru nú í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna bankaránsins í útibúi Landsbankans í Borgartúni í gær. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, staðfestir þetta við mbl.is.

Í frétt RÚV kemur fram að einn mannanna sem eru í haldi sé annar bankaræningjanna tveggja. Friðrik Smári vildi ekki staðfesta það í samtali við mbl.is en vísaði til tilkynningar sem lögreglan hyggst senda frá sér fljótlega vegna málsins.

Að minnsta kosti þrír mannanna voru handteknir í gær en ekki hefur fengist staðfest hvenær hinir tveir voru teknir höndum.

Lögregla fann einnig eftirlíkingu af skammbyssu og hníf sem talið er að tveir ræningjar hafi notað við bankaránið í gær.

Umfangsmikil leit fór fram í Öskjuhlíð og víðar í borginni í gær og var þyrla Landhelgisgæslunnar meðal annars notuð til að leita að ræningjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert