Innlendar fréttir ársins 2015

Það er óhætt að segja að árið sem er að líða hafi verið viðburðarríkt. mbl.is hefur tekið saman nokkur af helstu innlendu málefnum ársins.

Til viðbót­ar þess­ari sam­an­tekt geta les­end­ur flett í gegn­um inn­lend fréttaknippi mbl.is, þar sem frétt­um um hvert mál­efni er safnað sam­an.

Ferðaþjónusta fatlaðra

Strax eftir áramót var það Ferðaþjónusta fatlaðra sem var í brennidepli en fregnir af slakri þjónustu vöktu athygli. Notendur ferðaþjónustunnar voru ýmist ekki sóttir á réttum tíma eða ekki sóttir yfir höfuð. Síðan voru einnig til dæmi um þar sem að fólk var skilið eftir á vitlausum stöðum, í einhverjum tilvikum eitt. Saga Ólafar Þorbjargar Pétursdóttur, átján ára þroskaskertrar stúlku vakti til að mynda mikla reiði en hún fannst í læst­um bíl á veg­um ferðaþjón­ustunnar að kvöldi 4. febrúar eftir að hennar hafði verið leitað af lögreglu. Talið er að hún hafði verið ein í bílnum í um sjö klukkustundir. Fjölmörg dæmi fylgdu í kjölfarið, ýmist þar sem skjólstæðingar þjónustunnar voru skildir eftir, ekki sóttir, eða sóttir seint. Strætó ehf. rekur þjónustuna en um áramót innleiddi það nýtt umsjónarkerfi til að auðvelda þjónustuna. Nýja kerfinu var hinsvegar kennt um hversu illa Ferðaþjónustu fatlaðra gekk að sinna hlutverki sínu. Starfsfólk og notendur ferðaþjónustunnar náðu þó að aðlagast og virðist sem það gangi nú betur að sinna þeim sem noti þjónustuna.

Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og gekk erfiðlega að …
Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og gekk erfiðlega að láta hana virka rétt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Óveður í mars

Eins og fyrri ár vakti blessað veðrið umtal og athygli. Nokkra daga í mars komu lægðirnar upp að landinu eins og á færibandi og ollu þær miklu tjóni, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Rútur fuku útaf þjóðvegunum, það flæddi upp úr niðurföllum, þakplötur fuku og innanlands og millilandaflug lá niðri. 14. mars var veðrið sérstaklega slæmt á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla lokaði m.a. Miklubraut við Kringluna vegna fjúkandi þakplatna og einnig þurfti að loka vegum í kringum Egilshöll vegna sama vandamáls en þar rifnuðu tæplega 1.000 fer­metr­ar af þak­dúk Eg­ils­hall­ar af í stormviðrinu. Mesta tjónið þann dag varð hinsvegar í Mosfellsbæ og var það metið á 15 milljónir króna.

Björgunarsveitamenn að störfum á höfuðborgarsvæðinu 14. mars.
Björgunarsveitamenn að störfum á höfuðborgarsvæðinu 14. mars. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Óveður í desember

Í fyrstu viku desembermánaðar var veðrið aftur í aðalhlutverki og kom fyrsti skellurinn 1. desember, á sjálfan fullveldisdaginn. Austan stormur og hríðabylur gengu yfir landið, með snjókomu og skafrenningi,  fyrst suðvestan til. Blint var vegna fjúks frameftir morgni en þá fór að létta til. Heldur dró úr vindi eftir hádegi en þá bætti í snjókomuna. Þegar mest var voru 130 björgunarsveitamenn að störfum á höfuðborgarsvæðinu en einnig í Vest­manna­eyj­um, á Akra­nesi og Suður­nesj­un­um, Að mati neyðaraðila gekk dagurinn vel og þakkaði aðgerðarstjórn í Skógarhlíð fólki fyrir að hafa hlustað og farið eftir fyrirmælum vegna óveðursins. Þrátt fyrir það þurftu tugir bílstjóra á aðstoð að halda á höfuðborgarsvæðinu og fella þurfti niður ferðir Flugfélags Íslands.

Tjónið var mest í Mosfellsbæ eftir óveðrið 14. mars.
Tjónið var mest í Mosfellsbæ eftir óveðrið 14. mars. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Næsta dag gekk óveður yfir Norður- og Austurland þar sem vindur komst upp í 40 metra á sekúndu í hviðum. Björgunarsveitamenn á Húsavík björguðu fjúkandi lausamunum og snjóflóð lokaði Ólafsmúla.

Tveimur dögum síðar, eða 4. desember gekk svokallað ofsaveður yfir suðurströndina en ofsaveður er þegar vind­hraðinn nær 28,5-32,6 m/​​s. Veðrið skall á eftir hádegi og var flugferðum Flugfélags Íslands flýtt vegna þess og hringveginum lokað frá Markarfljóti að Breiðamerk­ur­lóni klukkan 14. Um kvöldið fór veður mjög versn­andi nán­ast í öll­um lands­hlut­um og fjölmörgum þjóðvegum lokað, meðal annars Öxnadalsheiði, Hellisheiði og veginum á milli Hveragerðis og Selfoss. Veðrið var þó áfram verst á Suðurströndinni og um kvöldmatarleytið hafði vind­ur náð upp í 56 metra á sek­úndu á mæli Vega­gerðar­inn­ar við Sand­fell í Öræf­um. 

Versta veðrið í þessari hrinu var þó mánudaginn 7. desember þegar að fárvirðri gekk yfir landið. Í fár­v­irðri fer meðal­hraði vind­hviða yfir 32,7 metra á sek­úndu og er það einu stigi fyr­ir ofan ofsa­veður. Veðrið stóð undir nafni og skall á Suðurlandi síðdegis. Um kvöldið var síðan ofsaveður eða fárviðri um allt landi.  Rík­is­lög­reglu­stjóri ákvað að lýsa yfir hættu­stigi í Vest­manna­eyj­um vegna veðursins og ekki að ástæðulausu. Líklega hlaust mesta tjónið þegar að hluti af þaki fauk af íbúðahúsi í bænum. Þar að auki bárust fjölmargar tilkynningar um laus þök og önnur fokverkefni en sem betur fer voru engin slys á fólki.

Björgunarsveitamenn voru á ferðinni um allt land og tóku 846 björg­un­ar­sveita­menn þátt í 434 verk­efn­um mánudag og aðfaranótt þriðjudags. Verkefnin voru af ýmsum toga, enda tjónið gífurlegt í ákveðnum landshlutum. Til að mynda brotnaði veitingavagn við Seljalandsfoss í spað og hús fauk í heilu lagi á Patreksfirði. Þar að auki sukku tveir bátar í Reykjavíkurhöfn.

Tveir bátar sukku í Reykjavíkurhöfn.
Tveir bátar sukku í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Geirvartan frelsuð

Þann 25. mars var „geirvarta“ án efa orð dagsins þar sem mörg hundruð íslenskar stúlkur og konur ákváðu að bera brjóstin á samfélagsmiðlum til að mótmæla klámvæðingu geirvörtunnar. Sumar létu sér ekki samfélagsmiðlana nægja og mætti hópur stúlkna í framhaldsskólum landsins ýmist án brjóstahaldara eða í gegnsæjum bolum í skólann. Aðrar tóku sig síðan til og gengu niður Laugaveginn berbrjósta.

Fljótt varð ljóst að um byltingu var að ræða og vakti hún mikla athygli, meira að segja út fyrir landssteinana. Umræðan hófst kvöldið áður eftir að Adda Þóreyj­ar­dótt­ir Smára­dótt­ir, nemi í Versl­un­ar­skóla Íslands hafði birt mynd af sér sem sýndi brjóst hennar og var með því að benda á að geirvörtur hennar hefðu ekki sömu stöðu og geirvörtur skólabræðra hennar. Tveir ung­lings­strák­ar gagnrýndu hana fyr­ir að hafa sett mynd­ina af sér á netið og ákvað Femín­ista­fé­lag Versl­un­ar­skól­ans í kjölfarið að halda #FreeT­heNipple dag, þar sem kon­ur í skól­an­um voru hvatt­ar til að mæta í skól­ann án brjósta­hald­ara.  Stúlkur í öðrum framhaldsskólum létu ekki sitt eftir liggja og hófst þá byltingin. Frelsun geirvörtunnar skapaði mikla umræðu um kynfrelsi, jafnrétti og hefndarklám og litu margar stúlkur svo á að með því að bera geirvörtuna væru þær að taka völdin af aðilum sem stunda hrelli- eða hefndarklám.

Stúlkur í MR tóku þátt í frelsu geirvörtunnar.
Stúlkur í MR tóku þátt í frelsu geirvörtunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Stúlkur í Kvennaskólanum.
Stúlkur í Kvennaskólanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn sólríkan laugardag í júní voru geirvörturnar frelsaðar að nýju á Austurvelli. Fjölmargir mættu til að leggja baráttunni lið, ýmist berir að ofan eða ekki. „Okk­ur finnst fá­rán­legt að sam­fé­lagið geti bannað okk­ur að vera ber­ar að ofan. Þetta er okk­ar leið til að taka aft­ur okk­ar lík­ama og eigna okk­ur hann,“ sagði Stein­unn Ólína Hafliðadótt­ir í sam­tali við mbl.is en hún var ein þeirra sem tók þátt á Austurvelli. Viðmælendur mbl.is á Austurvelli voru sammála um það að byltingin sem hófst á samfélagsmiðlunum í mars hefði leitt til aukinnar og opnari umræðu í samfélaginu.  

Geirvörtunar voru frelsaðar að nýju á Austurvelli í júní
Geirvörtunar voru frelsaðar að nýju á Austurvelli í júní mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í október bárust síðan fregnir af því að Adda, fyrrnefndur forsprakki byltingarinnar, hefði fengið sérstök jafnréttisverðlaun á ungmennaráðstefnu í Taívan. Hlaut hún verðlaunin fyrir hennar hlut í frelsun geirvörtunnar á Íslandi og fyrir að berjast fyrir kvenréttindum.

Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir á Austurvelli ásamt vinkonu.
Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir á Austurvelli ásamt vinkonu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kynferðisbrot

Umræða um kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi var einnig áberandi og hófu fjölmargir að opna sig um reynslu sína, m.a. í Facebook hópnum Beauty Tips og undir myllumerkinu #þöggun.  En tvö mál vöktu sérstaka athygli, annars vegar sýknudómur í svokölluðu hópnauðgunarmáli og svo rannsókn á kynferðisbrotum í Hlíðunum. Þegar að í ljós komu að mennirnir sem höfðu verið kærðir vegna málanna í Hlíðunum hefði ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald myndaðist mikil reiði í samfélaginu og var mótmælt fyrir utan lögreglustöðina við Hverfisgötu. Að sögn mótmælanda var ekki aðeins verið að mótmæla vinnubrögðum í þessu eina ákveðna máli heldur í kerfinu öllu. 

Mótmælt fyrir utan lögreglustöðina.
Mótmælt fyrir utan lögreglustöðina. mbl.is/Árni Sæberg

Sýknudómurinn í hópnauðgunarmálinu vakti einnig mikla reiði og var honum mótmælt fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur. Fimm drengir höfðu verið ákærðir fyrir að hafa nauðgað sextán ára stúlku í samkvæmi í heimahúsi í Breiðholti í maí 2014. Allir voru þeir sýknaðir en einn þeirra dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tekið atvikið upp á myndband. 18. desember ákvað ríkissaksóknari að áfrýja málinu til Hæstaréttar. 

Slys í Læknum í Hafnarfirði

Síðdegis þann 14. apríl bárust fregnir af því að verið væri að flytja þrjá á sjúkrahús eftir alvarlegt slys í Læknum í Hafnarfirði, nálægt Lækjarskóla. Síðar kom í ljós að um tvo unga bræður var að ræða og mann á þrítugsaldri sem reyndi að koma þeim til aðstoðar. Hann var fljótur að jafna sig en ljóst var að ástand bræðranna var alvarlegt. Annar drengjanna var endurlífgaður á staðnum en yngri bróður hans var haldið sofandi í öndunarvél í þrjá daga.

Slökkviliðsmenn að störfum við vettvang slyssins.
Slökkviliðsmenn að störfum við vettvang slyssins. mbl.is/Kristinn

Tæplega einum og hálfum mánuði síðar lýstu foreldrar drengjanna, þau Bjarni Einarsson og Hafdís Jónsdóttir, eftirmálum slyssins sem átti  sér stað þegar drengirnir voru að reyna að ná bolta úr læknum. Bjarni og Hafdís og heilbrigðisstarfsfólk voru sammála um það að drengirnir hefðu náð ótrúlegum bata, sérstaklega sá yngri, Hilmir Gauti. Hann var í hjartastoppi í 40 mínútur áður en endurlífgunartilraunir báru árangur. Bjarni sagðist ákaflega þakklátur í samtali við mbl.is. „Við hefðum ekki getað fengið stærri happ­drætt­is­vinn­ing. Þetta er í raun annað tæki­færi í líf­inu.”

Einar Árni, Hafdís Jónsdóttir, Bjarni Einarsson og Hilmir Gauti
Einar Árni, Hafdís Jónsdóttir, Bjarni Einarsson og Hilmir Gauti mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Fjárkúgun

Í lok maí voru tvær systur handteknar í Vallahverfinu í Hafnarfirði fyrir að hafa reynt að kúga fé úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Í ljós kom að um var að ræða fjölmiðlakonunnar Hlín Einarsdóttur og Malín Brand. Þær eru grunaðar um að hafa sent bréf í pósti heim til Sigmundar og kraf­ist þess að hann greiddi þeim til­tekna fjárupp­hæð. Átti að skilja fjármunina eftir ákveðnum stað sunn­an Valla­hverf­is í Hafnar­f­irði. Þar hand­tók lög­regla kon­urn­ar. Systurnar voru síðan handteknar aftur 3. júní vegna nýrr­ar kæru sem barst lög­regl­unni vegna til­raun­ar til fjár­kúg­un­ar. Eiga þær að hafa kúgað fyrrum samstarfsfélaga Hlínar til þess að greiða þeim 700 þúsund krónur, ella yrði hann kærður fyrir að hafa nauðgað Hlín. Síðar lagði Hlín fram kæru vegna umræddar nauðgunar.

Fjárkúgunin sem beindist að forsætisráðherra var í tæpa fimm mánuði í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu áður en málið komst á borð ríkissaksóknara í síðasta mánuði. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um kæru í málinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Flóttafólk á Íslandi

Flóttamannastraumurinn til Evrópu hefur aldrei verið eins mikill og á þessu ári og hefur að minnsta kosti ein milljón flóttamanna farið til Evrópu. Stór hluti þeirra er frá Sýrlandi en þar hefur geisað blóðugt stríð í tæplega fimm ár. Fréttaflutningur af fólkinu sem hætti lífi sínu á litlum gúmmíbátum við það að komast yfir Miðjaðarhafsins til Evrópu hreyfði við Íslendingum og í haust skráðu hátt í 20.000 manns sig á Facebook viðburðinn „Kæra Eygló-Sýrland kallar.“ Það var Bryndís Björgvinsdóttir sem bjó til viðburðinn og sagði markmið hans það að sýna að Íslendingar væru tilbúnir til að taka á móti og aðstoða flóttamenn. Fjölmargir buðust til að hýsa flóttamenn og enn fleiri buðu þeim klæðnað, félagslegan stuðning og húsgögn. Mikilvægi umræðunnar sýndi sig einnig hjá Rauða krossinum en þar fjölgaði sjálfboðaliðum mikið í haust.

Áshildur Linnet verkefnisstjóri Rauða krossins og Bryndís Björgvinsdóttir á upplýsingafundi …
Áshildur Linnet verkefnisstjóri Rauða krossins og Bryndís Björgvinsdóttir á upplýsingafundi sjálfboðaliða Rauða krossins. mbl.is/Árni Sæberg

Stuttu síðar greindi ríkisstjórnin frá því að tveimur milljörðum króna yrði varið til flóttamannamála á þessu ári og því næsta. Von er á 55 sýrlenskum flóttamönnum til Íslands í janúar en þeir munu búa í Kópavogi og á Akureyri. Fólkið hefur dvalið í flóttamannabúðum í Líbanon, flestir í mörg ár.

Málefni hælisleitenda voru einnig í umræðunni, sérstaklega í desember þegar að tveimur albönskum fjölskyldum var vísað úr landi eftir að hafa verið neitað um hæli af Útlendingastofnun. Málið vakti mikla athygli og reiði þar sem í báðum fjölskyldunum voru langveik börn. Nokkrum dögum eftir að fólkinu var gert að yfirgefa Ísland bárust fregnir þess efnis að velvilji væri á Alþingi til þess að veita fólkinu íslenskan ríkisborgararétt. Það var síðan gert síðustu helgina fyrir jól og er von á fólkinu aftur til Íslands í janúar en þau höfðu verið hér á landi í tíu mánuði áður en þeim var vísað úr landi.

Fjölmargir mættu á samstöðufund til stuðnings fjölskyldnanna á Austuvelli.
Fjölmargir mættu á samstöðufund til stuðnings fjölskyldnanna á Austuvelli. mbl.is/Styrmir Kári

Ísraelskar vörur sniðgengnar

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti þann 15. september að sniðganga vörur framleiddar í Ísrael. Sú ákvörðun dró svo sannarlega dilk á eftir sér og ákvað borgarstjórn viku síðar að boða til aukafundar þar sem tillagan var dregin til baka. Mikil reiði myndaðist vegna samþykktarinnar meðal Ísraelsmanna og var fjallað um hana í ísraelskum fjölmiðlum. Talsmaður utanríkisráðuneytis Ísraela sagði m.a. að „hat­ur­seld­fjall“ hafi gosið í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur. Samþykktin vakti þó líka reiði meðal Gyðinga um allan heim og var því haldið fram að gyðingahatur fengi að ríkja í Reykjavík. Greindi Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, frá því að hún hefði heyrt af íslenskum fyrirtækjum sem hefði verið lokað á í Bandaríkjunum vegna málsins. Einnig var sagt frá því að mikið álag hafi myndast í íslenskum sendiráðum þar sem yfir tvö hundruð manns sett sig í sam­band við sendi­ráðin og ým­ist lýst því yfir að þeir séu hætt­ir við ferðir til lands­ins eða hætt­ir að kaupa ís­lensk­ar vör­ur í mót­mæla­skyni. Voru flestir frá Bandaríkjunum en einnig Frakklandi og Rússlandi.

Einnig notaði fólk  myllumerkið #boycotticeland á Twitter til að lýsa yfir reiði sinni vegna samþykktarinnar. Í samtali við mbl.is viðurkenndi Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að það hefði mátt undirbúa tillöguna betur.

Úr varð að samþykktin var dregin til baka á borgarstjórnarfundi 22. september. Voru margir sem fögnuðu því en aðrir sem hörmuðu það og sendi Landsfundur Ungra vinstri grænna frá sér ályktun þar sem „„kjarkleysi borgarstjóra“ var gagnrýnt. Voru aðrir sem kröfðust þess að borgarstjóri og borgarstjórn myndi segja af sér vegna málsins.

Áhorfendapallar ráðhússins voru þéttsetnir í á aukafundi borgarstjórnar þar sem …
Áhorfendapallar ráðhússins voru þéttsetnir í á aukafundi borgarstjórnar þar sem horfið var frá sniðgöngu ísraelskra vara. mbl.is/Styrmir Kári

Skaftárhlaup

Skaftárhlaup hófst úr eystri Skaftárkatli í lok september.  Gífurlegir kraftar voru í hlaupinu og var áin í gríðarlegum ham fyrstu dagana. 3 dögum eftir að það hófst fór rennslið yfir 3.000 rúm­metra á sek­úndu þegar mest var. Síðar fór það niður í rúmlega 1.500 rúmmetra á sekúndu en það er meira en mælst hafði áður í Skaft­ár­hlaup­um síðan byrjað var að mæla þau árið 1955. Tjón varð á tún­um, ökr­um og ræktuðu landi og brustu varnargarðar. Þá flæddi yfir vegi og lýsti ríkislögreglustjóri yfir hættuástandi á  Suðurlandi vegna hlaupsins.

Ljóst er að tjón vegna Skaft­ár­hlaups­ins er upp á á hundruð millj­óna a.m.k. Mest mun­ar þar um tjón á beitilandi á af­rétt­um og upp­græðslu. 

Tjónið eftir Skaftárhlaup er töluvert.
Tjónið eftir Skaftárhlaup er töluvert. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Kjaraviðræður 2015

Kjaradeilur og verkföll einkenndu árið sem er að líða rétt eins og síðasta ár en í apríl lögðu hundruð félagsmanna í BHM niður störf. Þar á meðal voru opinberir starfsmenn eins og lögfræðingar hjá sýslumannsembættunum, dýralæknar hjá Matvælastofnun og geislafræðingar og lífeindafræðingar hjá Landspítalanum. Það þýddi m.a. að á meðan verkfallinu stóð voru engar þinglýsingar eða hjúskapavottorð afgreidd og hvorki kjúklingum né svínum slátrað, nema þegar að sérstakar undanþágur voru veittar. Í lok maí fóru síðan hjúkrunarfræðingar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga í verkfall þar sem að hundruð aðgerða féllu niður og lágmarksstarfsemi var á Landspítalanum. Þann 11. júní setti Alþingi lög á bæði verkföllin og var gerðardómur skipaður í kjölfarið. Hann úrskurðaði í ágúst hver laun félagsmanna skyldu vera.

Félagsmenn BHM og FÍH mótmæltu fyrir utan Alþingishúsið eftir að …
Félagsmenn BHM og FÍH mótmæltu fyrir utan Alþingishúsið eftir að lög voru sett á verkföll þeirra. mbl.is/Styrmir Kári

Vinnustöðvanir félagsmanna í SFR, Stéttarfélags í almannaþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands hófust í október. Félögin voru í samfloti með Landsambandi lögreglumanna í viðræðum við ríkið. Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt og tóku því ekki þátt í vinnustöðvunum. Þeir voru þó mjög áberandi í kjarabaráttunni og vakti það t.d. athygli þegar um sjötíu lögreglumenn um land allt tilkynntu veikindi einn föstudag í október. Einnig var sagt frá því í lok október að í þeim mánuði hafi  59 umferðarlagabrot verið kærð til embættis ríkislögreglustjóra en meðaltal kæranna í október árin 2010-2014 eru 1625 kærur. Samkvæmt heimildum mbl.is voru lögreglumenn hættir að sekta fyrir flest umferðarlagabrot og var það hluti af kjarabaráttu þeirra.

Lögreglumenn söfnuðust saman fyrir utan Karphúsið.
Lögreglumenn söfnuðust saman fyrir utan Karphúsið. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samninganefndir SFR, SLFÍ og LL undirrituðu nýja kjarasamninga í húsnæði ríkissáttasemjara 28. október og samþykktu félagsmenn félaganna þriggja samninginn. Athygli vakti hinsvegar að í atkvæðagreiðslu lögreglumanna sögðu fleiri nei við samningnum en já. Það voru auðu seðlarnir sem réðu úrslitum en þeir voru ellefu talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert