Annar mannanna sem rændu útibú Landsbankans í Borgartúni skömmu eftir hádegi í gær stökk yfir borð í gjaldkerastúku og hrinti gjaldkera. Við það skildi hann eftir sig fingraför á borðinu, samkvæmt heimildum mbl.is.
Myndir náðust af mönnunum á öryggismyndavél á bensínstöð og bar lögregla kennsl á þá. Þeirra var leitað í Öskjuhlíð og víðar í gær.
Lögregla handtók þrjá menn í tengslum við málið í gær en tveggja til viðbótar er enn leitað. Þá fannst eftirlíking af skammbyssu og hnífur sem talið er að ræningjarnir hafi beitt við ránið.
Laust eftir hádegi í gær frömdu tveir menn vopnað rán í útibúi Landsbankans í Borgartúni. Talið er að annar maðurinn hafi verið vopnaður skammbyssu og hinn vopnaður hnífi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins höfðu mennirnir tveir í frammi hótanir og kröfðust fjármuna af starfsmönnum bankans.
Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, staðfesti í samtali við mbl.is í gær að mennirnir hefðu komist undan með einhverja fjármuni, en ekki liggur fyrir hversu mikla.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði starfsfólki útibúsins illa brugðið en hann var staddur í útibúi bankans þegar blaðamaður mbl.is náði haf honum tali í gær. Hann sagði engar verulegar skemmdir hafa orðið á útibúinu í ráninu en mestu máli skipti velferð starfsfólksins.
„Flestir eru farnir heim núna eða að fara heim núna. Útibúið verður síðan lokað á morgun, gamlársdag, í ljósi atburðanna en mörgum er illa brugðið. Svona gerist sem betur fer ekki oft en fólkið okkar er vel þjálfað til að bregðast við.“
Bankaræningjarnir tveir voru mjög ógnandi að sögn Steinþórs og fékk starfsfólk útibúsins áfallahjálp.
„Þetta er auðvitað mikið áfall fyrir okkur öll, bæði starfsfólk og fólkið sem var að eiga viðskipti inni í útibúinu þegar þetta gerðist. Það voru margir staddir hér inni þegar ránið var framið.“
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brá skjótt við og strax var mynd úr eftirlitsmyndavél bankans birt á vef lögreglu og send fjölmiðlum og fólk beðið um að veita lögreglu aðstoð við að bera kennsl á mennina tvo en þeir flúðu af vettvangi á stolinni hvítri sendibifreið, sem fannst fljótlega eftir bankaránið í Barmahlíð í Reykjavík. Þar náðust myndir af þeim á öryggismyndavél og bar lögregla kennsl á mennina af myndunum.
Við tók leit lögreglu á svæðinu en vopnuð sérsveit embættis ríkislögreglustjóra leitaði í Öskjuhlíð ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Að sögn íbúa í Hlíðunum flaug þyrla Gæslunnar lágflug yfir Öskjuhlíðinni, fór milli íbúðarhúsa í Hlíðunum, sunnan megin við Miklubraut, og Öskjuhlíðar og beindi loftkösturum niður. Óstaðfestar heimildir herma að þyrlan hafi notast við hitamyndavélar og nætursjónauka við leitina í Öskjuhlíð.
Fljótlega upp úr kl. hálfsjö bárust þær fregnir að búið væri að handtaka tvo menn í tengslum við bankaránið. Þá virðist sem leit lögreglunnar og sérsveitarinnar í Öskjuhlíð hafi lokið um svipað leyti, en hvorki lögreglumenn né lögreglubíla var þá að sjá við Öskjuhlíðina.
Kristján Ólafur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, staðfesti í gærkvöldi að búið væri að handtaka tvo menn í tengslum við rannsókn málsins og enn væri tveggja manna leitað.
„Við gefum ekkert út um það hvort mennirnir tveir sem nú er búið að handtaka séu þeir sem fóru vopnaðir í útibú Landsbankans. Það eina sem ég get sagt er að búið er að handtaka tvo menn í tengslum við ránið og við erum enn að leita tveggja manna,“ sagði Kristján í samtali við Morgunblaðið um hálfáttaleytið í gærkvöldi.