„Við stöndum saman í þessu“

Frá óveðrinu á Eskifirði í gær.
Frá óveðrinu á Eskifirði í gær. Photo/Jens G. Helgason

„Þótt ég myndi sitja með þér langa stund, þá gæti ég ekki talið upp allar skemmdirnar,“ segir Elvar Óskarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglustjóranum á Austurlandi. Mikið óveður geisaði á austurströnd landsins snemma gærdags og fylgdi því há sjávarstaða og áhlaðandi mikill að sögn Elvars.

Mikill erill var hjá viðbragðsaðilum fram eftir gærdeginum og var flestum vegum á Austurlandi lokað. Segist Elvar telja að öllum vegum nema á milli Reyðafjarðar og Fáskrúðsfjarðar hafi verið lokað. Aðspurður hvort lögregla hafi þurft að hafa afskipti fólki sem reyndi að fara um vegina þrátt fyrir lokanir svarar Elvar neitandi.

„Það þurfti ósköp lítið að segja. Veðrið sá alfarið um að tala,“ segir hann og bætir við að lögregla hafi mjög takmarkað spáð í lokanirnar enda af nógu að taka af öðrum verkefnum. „Ég held að fólk hafi, að stærstum hluta, gert sér fulla grein fyrir því að það hefði ekkert út að gera,“ segir Elvar og nefnir að mælst hafi 52 m/s í vindhviðum á Fáskrúðsfirði í gær.

Grjót, sandur og þari á áður óséðum slóðum

Í óveðrinu fauk ýmislegt lauslegt. Elvar segir viðbragðsaðila auk fyrirtækja í bænum hafa náð að koma böndum á flesta fjúkandi lausamuni, en þó beri svæðið þess merki að þar hafi verið óveður.

„Auðvitað er grjót, sandur, þari og ógeð á landi á stöðum þar sem menn hafa aldrei nokkurn tímann séð annað eins áður. Ég hef aldrei á minni ævi séð annan eins ágang,“ segir Elvar.

Þrátt fyrir mikið tjón á eignum á Austurlandi hefur lögreglu ekki borist nein tilkynning um slys á fólki. Það segir Elvar vera fyrir mestu. „Svo vinna menn úr hinu. Það er nokkuð sem þarf bara að gera,“ segir hann.

Aðspurður hvort atburðir gærdagsins komi til með að setja svip sinn á nýársgleði næturinnar svarar Elvar neitandi.

„Veistu það, ef ég þekki fólkið rétt í kringum mig, þá er þetta eitthvað sem fólk vinnur úr. Ég hef ekki trú á því. Þó að ég muni ekki eftir eins miklum skemmdum held ég að fólk sé ekki að fara að leggjast í þunglyndi,“ segir hann.

„Fólk lítur á þetta sem verkefni. Við stöndum saman í þessu,“ segir Elvar að lokum og bætir við að yfirlýsingar sveitarstjórna og ríkisstjórnarinnar gefi fólki tilefni til þess að ætla að það sitji ekki eitt í eftirmálum óveðursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert