Þyngri dómur fyrir að vera tvö að verki

Kókaínið sem fannst í fórum fólksins. Um er að ræða …
Kókaínið sem fannst í fórum fólksins. Um er að ræða 4 kg. Ljósmynd/www.pm.ce.gov.br/

Íslenska parið sem nú situr í gæsluvarðhaldi í Forta­leza í Brasilíu, grunað um að hafa ætlað að smygla 4 kg af kókaíni úr landi gæti hlotið 5-15 ára fangelsisdóm. Sakarferill þeirra og hegðun innan múra fangelsisins gæti haft talsverð áhrif á lengd dómsins. Þetta segir Miriam Guerra D. Másson, lögmaður frá Brasilíu sem hefur verið búsett á Íslandi í tíu ár.

Hún hefur þetta eftir lögregluyfirvöldum á svæðinu. 

Miriam segir fangelsin í Brasilíu vera með þeim verstu í heimi. Þau eru „ömurleg og ógeðsleg“ en hún heimsótti fangelsi þegar hún var við lögfræðinám á sínum tíma. Segist hún hafa fengið sjokk þegar hún sá hver aðbúnaður fanga var. Allt of margir í hverjum klefa, þannig að fangar þurftu að skiptast á að sofa standandi sökum plássleysis. „Fangar fá mjög sjaldan kjöt. Næstum alla daga fá þeir að borða svartar baunir og hrísgrjón,“ segir hún og bætir við að ekki sé hægt að fara í heita sturtu, aðeins kalda.

Þar sem þau voru tvö að verki verður dómurinn þyngri en ella að sögn Miriam verði þau dæmd sek. Það telst vera skipulögð glæpastarfsemi ef fleiri en tveir eru að verki og þarf parið því að svara fyrir tvö brot, annars vegar fyrirhugað fíkniefnasmygl og hins vegar skipulagða glæpastarfsemi.

Mikilvægt að fá góðan verjanda

Miriam segir að þau séu núna í gæsluvarðhaldi, og þar sé aðbúnaður fanga mun skárri en í venjulegum fangelsum. Ekki liggur fyrir hvenær dæmt verður í málinu og segir Miriam það geta tekið allt að eitt ár, en parið mun dvelja í gæsluvarðhaldi þangað til.

„Það er enginn framsalssamningur milli Íslands og Brasilíu. Það er ekki hægt að framselja fanga á milli landanna og þurfa þau því að afplána allan tímann þarna,“ segir hún.

Hún segir það mikilvægt að íslenska parið fái sér góðan verjanda. Þau geti reynt að fá skilorðsbundinn dóm, en það gæti reynst torsótt þar sem um útlendinga sé að ræða. 

Allir fangar eiga rétt á verjanda, og verður parinu því skipaður einn. Miriam segir að þeir verjendur sem glæpamönnum er skipaður séu með mjög marga skjólstæðinga og fyrir vikið ná þeir ekki að setja sig vel inn í hvert mál.

Miriam Guerra D. Másson.
Miriam Guerra D. Másson. Ljósmynd/Miriam Guerra D. Másson
Parið var handtekið í austurhluta Brasilíu.
Parið var handtekið í austurhluta Brasilíu. Map/Google
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert