Brasilíukókaínið gæti verið 560 milljóna virði

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir.
Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir. Árni Sæberg

Söluverðmæti þeirra fjögurra kílóa af kókaíni sem íslenskt par var tekið með í Brasilíu á annan dag jóla gæti verið allt að 560 milljónir íslenskra króna. Þetta segir Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir SÁÁ. Hann segir algengt að kókaín sé notað sem gjaldmiðill innan fíkniefnaheimsins, t.d. sem greiðsla fyrir smygl. Neyslan hafi minnkað eftir hrun, en sé nú að aukast á ný.

SÁÁ, Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann, fylgjast með gangverði hinna ýmsu fíkniefna og eru upplýsingar um verðið birtar á vef samtakanna.

Að sögn Þórarins er verðið á hverju grammi kókaíns á bilinu 15.000 - 20.000 krónur. „Það fer talsvert eftir styrkleikanum, þ.e. hversu hátt hlutfall er hreint kókaín. Þá er verðið líka mismunandi eftir árstímum og hvenær sólarhringsins viðskiptin eiga sér stað. Verðið er t.d. hærra á sumrin og í kringum áramótin. Það er líka dýrara að kvöldlagi,“ segir Þórarinn.

Gætu verið 28.000 söluskammtar

Hann segir að fjögur kíló af kókaíni geti vel orðið að 28.000 söluskömmtum því hvert kíló geti sex- til sjöfaldast við blöndun ýmissa efna. Algengt sé að hver skammtur sé eitt gramm. „Nú veit ég ekki hversu hreint efnið er sem var tekið þarna úti, en efnin sem smyglað er og þau sem eru haldlögð eru oftast talsvert sterkari en þau eru þegar þau enda svo á götunni. Efnin sem eru til sölu hér eru oft veikari en í öðrum löndum, en styrkleikinn er mismunandi eftir því hversu sterkt efni er í gangi hverju sinni“ segir Þórarinn. 

Sé verðið á hverjum skammti 20.000 krónur, þá myndu 560 milljónir fást fyrir 28.000 skammta.

Hann segir að Brasilía sé algengur byrjunarreitur fyrir kókaín sem kemur hingað til lands. Það sé gjarnan flutt þaðan til ýmist Portúgals eða Spánar. „Reyndar hafa flutningaleiðirnar verið að færast austar, til Miðausturlanda.“

Kókaínneytendum að fjölga

Þórarinn segir talsverða eftirspurn eftir kókaíni hér á landi, það sé gjarnan sett á „hærri stall“ en önnur fíkniefni og þyki fínna en önnur örvandi efni eins og t.d. amfetamín. Neytendahópurinn sé nokkuð öðruvísi samsettur en hópurinn sem neytir annarra efna og efnið sé stundum notað sem gjaldmiðill í fíkniefnaheiminum - ungir fíklar sem starfi fyrir innflytjendur fíkniefna við flutning og sölu efnanna fái gjarnan greitt í kókaíni. 

„Svo eru það þeir sem hafa miklar tekjur og nota kókaín. Reyndar snarminnkaði sá hópur í hruninu og hefur ekki náð sér aftur á strik. Við sjáum þó að hann er að sækja í sig veðrið aftur,“ segir Þórarinn sem segist ekki hafa handbærar tölur um fjölda þeirra sem leitaði til SÁÁ vegna kókaínfíknar í fyrra.

Fjögur kg af kókaíni sem fundust í fórum Íslendinga í …
Fjögur kg af kókaíni sem fundust í fórum Íslendinga í Forta­leza í Brasilíu. mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert