Brasilískir netmiðlar hafa fjallað nokkuð um íslenska parið, sem nú situr í gæsluvarðhaldi í Fortaleza í Brasilíu eftir að fjögur kíló af kókaíni fundust í fórum þeirra þann 26. desember. Í umfjöllun fjölmiðla kemur m.a. fram að hótelstarfsmaður hafi gert lögreglu viðvart um að parið hafi yfirgefið hótelið, þar sem hann starfaði, með talsvert magn fíkniefna.
Leigubílstjóri, sem ók fólkinu á annað hótel, staðfesti þann vitnisburð.
Í einni fréttinni kemur fram að sex lögreglumenn hafi staðið að handtöku fólksins á Motel Paradís í bænum Itaóca.
Þá kemur einnig fram fólkið hafi fengið túlk sér til aðstoðar.
Í athugasemdakerfum þessara fjölmiðla hafa nokkrir Íslendingar látið í ljós skoðun sína og sýnist sitt hverjum. Sumir hæðast að fólkinu á meðan aðrir láta í ljós samhug sinn og ósk um að þeim farnist vel.