Davíð Þór: „Við höfum brugðist“

Sr. Davíð Þór Jónsson.
Sr. Davíð Þór Jónsson. mbl.is

Þeir sem ræna „óverulegum fjárhæðum“, eins og það er orðað, úr banka með trefla fyrir andlitinu eru eltir uppi af þyrlum Landhelgisgæslunnar, á meðan þeir sem ræna banka inn að skinni og rúmlega það innan frá kaupa sér fjölmiðlaveldi fyrir ágóðann til að reka áróður fyrir hagsmunum sínum. Þetta er meðal þess sem kom fram í nýársprédikun sr. Davíðs Þórs Jónssonar, héraðsprests í Austurlandsprófastsdæmi.

„Mismunun og misskipting gæða gegnsýra samfélög okkar. Laun þeirra hæst launuðu hækka, jafnvel afturvirkt, á sama tíma og biðröðum eftir mataraðstoð er ekki eytt og sjúklingar njóta ekki aðhlynningar. Þeir sem ræna „óverulegum fjárhæðum“, eins og það er orðað, úr banka með trefla fyrir andlitinu eru eltir uppi af þyrlum Landhelgisgæslunnar, á meðan þeir sem ræna banka inn að skinni og rúmlega það innan frá kaupa sér fjölmiðlaveldi fyrir ágóðann til að reka áróður fyrir hagsmunum sínum.

Hræsni og skinhelgi vaða uppi. Varað er við hryðjuverkum á meðan við stöndum aðgerðarlaus álengdar og horfum upp á menn, konur og börn, sem eru að flýja þessa nákvæmlega sömu hryðjuverkamenn, fólk frá löndum þar sem þeir eru raunverulega að ganga berserksgang, drukkna í brimróti við Grikklandsstrendur. Jafnvel heyrist fullyrt að við eigum ekki að veita sveltandi og frjósandi fólki mat og húsaskjól af því að við getum ekki líka veitt því fyrsta flokks sálfræðiþjónustu.

Ég er ekki að gera lítið úr mikilvægi sálfræðiaðstoðar – allra síst fyrir fólk sem glímir við þá áfallastreituröskun sem hlýtur að fylgja því að þurfa að yfirgefa heimili sín og aleigu, líf sitt, fjölskyldu og vini upp á von og óvon til að bjarga lífi sínu frá styrjaldarátökum. Ég er aðeins að reyna að setja hlutina í óbrjálað samhengi.

Við höfum brugðist,“ sagði Davíð Þór.

Hér má lesa prédikunina í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert