Hafði Þorgrímur rétt fyrir sér?

Börn hafa heilmikla hæfileika til samskipta að sögn Hildar.
Börn hafa heilmikla hæfileika til samskipta að sögn Hildar. AFP

Hildur Sigurðardóttir, lektor í ljósmóðurfræðum við Háskóla Íslands, segir að langdvöl mæðra ungbarna á Facebook geti eflaust í einhverjum tilfellum gefið vísbendingu um takmarkaða tengslamyndun við barnið, einkum ef einnig er til staðar ákveðið áhugaleysi gagnvart barninu og umönnun þess. Brjóstagjöfin geti þó tekið margar klukkustundir og því erfitt að gera kröfur til mæðra um að veita börnum sínum óskipta athygli, segir Hildur í samtali við mbl.is.

Tilefni samtalsins eru ummæli Þorgríms Þráinssonar, tilvonandi forsetaframbjóðanda, í Morgunvaktinni á Rás 1. Vitnaði hann þar til reynslu konu sem sinnir ungbarnaeftirliti, sem sagði frá tilfinningarofi milli móður og barns, sem hún hefur á brjósti, sökum þess að hún notar tímann við brjóstagjöfina til að vafra á Facebook í stað þess að ná augnsambandi við barnið. Þá rofni eitthvað. „Við þurfum að vanda okkur betur,“ sagði Þorgrímur.

„Varla þurfum við vökustaura?“

Ummælin vöktu mikil viðbrögð þar sem Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur vakti meðal annarra máls á þessu á Facebook-síðu sinni. 

Þar sem [Þorgrímur] hefur ekki verið með barn á brjósti sjálfur þarf kannski að minna hann á að mörg börn eru með lokuð augun á meðan á þessu ferli stendur. Varla þurfum við vökustaura á börnin til að tryggja „órofna tengingu“.

Þá þurfa hvítvoðungar að fá brjóst á u.þ.b. tveggja tíma fresti fyrsta skeið ævi sinnar. Mæðrum er innrætt að barnið eigi heimtingu á óskiptri athygli þeirra, bæði líkamlega og tilfinningalega. Þetta er erfitt ferli sem útheimtir oft blóð, svita og tár allan sólarhringinn. Mæður þurfa allra síst á því að halda að vera guilt-trippaðar með svona hrútskýringum,“ sagði Þórdís Elva.

Þorgrímur Þráinsson hefur gert sig líklegan til að bjóða sig …
Þorgrímur Þráinsson hefur gert sig líklegan til að bjóða sig fram til embættis forseta. mbl.is/Heiðar

Horfa verður á heildarmyndina

„Ef það er öðru hvoru verið að kíkja á Facebook, en að öðru leyti verið að lesa í hegðun barnsins og sinna því vel, þá er það allt öðruvísi en ef móðirin varla hefur frumkvæði til að hugsa um barnið svo sem að gefa því brjóst. Mömmur eins og aðrir geta verið miklir fíklar í Facebook og þetta er alltaf spurning um hvar mörkin liggja.“

„Maður verður að horfa á heildarmyndina. Í sambandi við að meta tengslamyndun foreldra við börnin þá horfir maður meðal annars á það hvort foreldrarnir nái augnsambandi við barnið sitt, sýni því áhuga og taki eftir hegðun þess. Börn hafa nefnilega heilmikla hæfileika til samskipta,“ segir Hildur og bætir við að þessir hæfileikar séu stundum vannýttir ef um takmarkaða tengslamyndun er að ræða.

„Það eru til ýkt dæmi þar sem mæður eru dálítið fastar í þessu, að fylgjast með hverju og einu „notification“ sem poppar upp á skjánum. Mæður eru ekkert undanskildar þessum vanda, þær eru bara eins og hverjir aðrir. En auðvitað slær það mann þegar þetta gengur út í öfgar.

Það er daglegur þáttur í lífi margra mæðra um heim …
Það er daglegur þáttur í lífi margra mæðra um heim allan að hafa börn sín á brjósti. AFP

Nánast alltaf tölvan eða sjónvarpið

Það hefur alveg komið fyrir að ég hafi sinnt mæðrum þar sem þetta er raunin, að í stað þess að njóta stundarinnar þegar barnið er á brjósti þá er tíminn nánast alltaf nýttur í tölvunni eða til að horfa á sjónvarpið. Að geta ekki notið þess. Þetta er samt alger undartekning en maður hefur samt kynnst því að móður finnist sem hún verði að vera stöðugt við Facebook á meðan hún gefur brjóst.“

Hún segir langdvöl á Facebook geta verið eitt af svokölluðum flóttaeinkennum. „Það þarf ekkert að vera Facebook, það getur verið hvað sem er, bara ef þú ert einfaldlega ekki að sýna barninu áhuga. Þar geta verið undirliggjandi vandamál af ýmsum toga, svo sem erfið fæðingarreynsla eða einfaldlega vanlíðan konunnar.“

Eitthvað til í orðum Þorgríms

Þá segir Hildur brjóstagjöfina geta tekið margar klukkustundir á hverjum sólarhring og því erfitt að gera kröfur til mæðra um að veita barninu óskipta athygli allan þann tíma.

„Kannski ertu að gefa barninu allt upp í átta til tíu sinnum á sólarhring og allt að klukkutíma í senn. Þá ertu komin með ansi stóran hluta af deginum á sama tíma og þig langar til að fylgjast með samfélaginu og nærumhverfinu, en samskiptin á Facebook snúast líka oft um barnið sjálft og þá er til dæmis mjög spennandi að sjá hvað fólk er að segja um myndir af barninu.

Þannig séð er eitthvað til í þessum orðum Þorgríms, vegna þessara ýktu dæma. En ég held að Facebook sé enginn orsakavaldur nema manneskjan sé gjörsamlega háð tækninni. Og mömmur geta verið það eins og allir aðrir.“

Facebook getur reynst bíræfinn tímaþjófur í lífi margra.
Facebook getur reynst bíræfinn tímaþjófur í lífi margra. mbl.is/Ernir

Ekki endilega gott að horfast í augu við barnið

„Í barnauppeldi eins og alls staðar í samfélaginu er aukin símanotkun hugsanlega að verða til vandræða. Væntanlega hefur hún áhrif í þessu sem öðru,“ segir Guðrún Jónasdóttir brjóstagjafaráðgjafi og eigandi fyrirtækisins Móðurástar, sem meðal annars leigir út mjaltavélar.

„Séu ummælin sjálf skoðuð þá er það ekki endilega góð stelling til brjóstagjafar að horfast í augu við barnið, því þá er barnið ekki að taka brjóstið rétt,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Þar fyrir utan get ég verið sammála honum um að það sé ákveðinn vandi til staðar. Ég hef sjálf hjálpað konum sem eru búnar að lenda í alls konar vandræðum í brjóstagjöfinni. Áreitið er orðið meira núna og í mörgum tilfellum mun meira en gott getur talist fyrir samband foreldra og barns.

En ég held að þetta sé stormur í vatnsglasi. Okkur er samt öllum hollt að staldra við og hugsa um hvort við séum að nota símann of mikið.“

Ummæli Þorgríms hafa ýtt við mörgum en eflaust ekki þessum …
Ummæli Þorgríms hafa ýtt við mörgum en eflaust ekki þessum börnum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Viljum gjarnan mæla alla mögulega hluti

Hún segir að tæknin geti líka komið að góðum notum fyrir mæður með börn á brjósti.

„Til eru alls konar öpp sem geta verið til góðs. Móðir sem er með barn á brjósti er hugsanlega komin með app þar sem hún skráir lengd gjafarinnar og ýmsar aðrar upplýsingar,“ segir Guðrún.

„Þetta má samt ekki verða að einhverju aðalatriði. Við mannfólkið viljum gjarnan mæla alla mögulega hluti með nýjust tækni en brjóstagjöf er illmælanleg. Fólk hættir að treysta sjálfu sér. Skortur á sjálfstrausti móður getur svo haft mjög slæm áhrif á brjóstagjöfina og ef það er ekki til staðar þá gengur þetta oft mjög illa."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert