„Þetta mun stoppa allan inn- og útflutning. Skipin stoppa bara,“ segir Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, um boðaðar verkfallsaðgerðir vélstjóra og skipstjórnenda á kaupskipum í millilandasiglingum, sem hefjast á miðnætti 1. febrúar næstkomandi.
Guðmundur segir langt síðan verkfallsaðgerðir settu mark sitt á skipaflutninga til og frá landinu en um sé að ræða nauðsynlega ráðstöfun til að fá viðsemjendur til að „tala um hlutina af einhverju viti“.
„Við hófum þessar viðræður við skipafélögin í maí eða júní, svona óformlega, og vísuðum deilunni áfram í haust og erum búin að eiga nokkra fundi hjá sáttasemjara. Og þetta hafa ekki verið neinar viðræður af hálfu fyrirtækjanna, þannig að við töldum okkur vera þvingaða til að boða þessar aðgerðir til að reyna að fá einhverja hreyfingu á viðræðurnar,“ segir Guðmundur um stöðu mála.
Boðað hefur verið til fundar á morgun.
Félagsmenn VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, á kaupskipum Samskipa og Eimskips eru 48 talsins en Guðmundur segir aðstæður þeirra um margt sérstakar þar sem þeir eru skráðir starfsmenn erlendra dótturfyrirtækja og greiða ekki skatt á Íslandi.
„Þetta er svolítið öðruvísi en mál sem snúa að venjulegum fyrirtækjum á innlenda vinnumarkaðnum útaf því að bæði starfsmennirnir og fyrirtækin sem við erum að semja við eru í raun skráð erlendis,“ segir Guðmundur.
Vegna alþjóðlegs eðlis skipaflutningabransans séu starfsmennirnir skráðir í Færeyjum, þar sem skipafélögin fá endurgreiddan þann skatt sem þau skila vegna starfsfólksins. Guðmundur segir þetta tíðkast á Norðurlöndunum, eyjum Karabíska hafsins og víðast hvar; „það má segja að öll frakt sem flutt er í heiminum sé meira og minna niðurgreidd vegna samkeppnisstöðu,“ segir hann.
Þannig sé sá möguleiki fyrir hendi að fyrirtækin gætu freistað þess að semja í Færeyjum en færeysk lög kveða reyndar á um að kjarasamningar starfsmanna séu á forræði stéttarfélaga í heimalandinu, að sögn Guðmundar.
„Þjóðarsálin horfir svolítið á þetta sem íslensku skipafélögin með Íslendinga á sínum skipum, en það eru ekki margir sem vita hvernig fyrirkomulagið á þessu er,“ segir hann.
Samkvæmt upplýsingum frá Eimskip eru áhrif vinnustöðvunarinnar í skoðun en viðbrögð munu velta á ýmsum þáttum, m.a. hvar skipin eru stödd þegar hún hefst. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu, þar sem áætlanir hafa farið úr skorðum vegna veðurs.
Ólafur William Hand, framkvæmdastjóri upplýsingamála hjá Eimskip, segir þó útilokað að skipin verði kyrrsett áður en til vinnustöðvunar kemur; viðræður standi yfir og unnið verði samkvæmt áætlun þar til annað kemur í ljós.