Fjórir nýir sendiherrar voru skipaðir um áramótin af Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra en um er að ræða starfsmenn utanríkisráðuneytisins. Þetta staðfestir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, í samtali við mbl.is.
Sendiherrarnir eru Harald Aspelund, Helga Hauksdóttir, Ingibjörg Davíðsdóttir og Unnur Orradóttir Ramette. Harald hefur verið skrifstofustjóri rekstrar- og þjónustu í utanríkisráðuneytinu, Helga hefur verið mannauðsstjóri ráðuneytisins, Unnur sendiráðunautur uppbyggingasjóðs Evrópska efnahagssvæðisins hjá ráðuneytinu og Ingibjörg var síðast í láni hjá forsætisráðuneytinu sem ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum.