Netflix aðgengilegt á Íslandi

AFP

Efnisveitan Netflix er nú aðgengileg hér á landi í gegnum íslenskar ip-tölur en fyrirtækið tilkynnti í dag að þjónusta þess yrði nú aðgengileg í 130 löndum til viðbótar við þau 60 sem fyrir voru. Ísland er þar á meðal. Fjallað er um málið í frétt AFP en þar segir að hlutabréf í Netflix hafi hækkað í kjölfar tilkynningarinnar.

Hægt er að fara inn á vefsíðu Netflix á slóðinni http://www.netflix.com/is en þar stóð áður að þjónustan væri væntanleg hér á landi eins og mbl.is fjallaði um í ágúst. Þar segir að mánuðurinn kosti 7,99 evrur eða sem nemur um 1.134 krónum. Fyrsti mánuðurinn er hins vegar frír.

Netflix boðaði komu sína hingað til lands í ágúst en til þessa hafa margir Íslendingar nýtt sér þjónustuna í gegnum krókaleiðir. Þær hafa í meginatriðum snúist um það að fólk hefur orðið sér úti um erlendar ip-tölur, ekki síst bandarískar, og skráð sig fyrir þjónustunni í framhaldinu eins og það væri í viðkomandi landi. Fjölmargir Íslendingar hafa farið þessa leið en samkvæmt skoðanakönnun MMR í febrúar 2014 fyrir Viðskiptablaðið voru þá a.m.k. einn af hverjum sex Íslendingum með aðgang að efnisveitunni.

Mbl.is hafði þá eftir Herði Ágústssyni, hjá Macland, að Netflix á Íslandi yrði væntanlega ekki það sama og bandaríska Netflix þar sem úrvalið yrði háð samningum við myndrétthafa á Íslandi.

Hluti þess sem er í boði.
Hluti þess sem er í boði. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert